Piazza dei Signori
Við förum um sund norðan Torre dei Lamberti undir steinbogann Arco della Costa inn á annað myndarlegt torg, Piazza dei Signori.
Ferhyrnt torg með feneyskum svip. Á miðju torginu er stytta af rithöfundinum Dante Aligheri, sem bjó í borginni í skjóli Scaligeri-hertoganna, meðan hann var í útlegð frá Flórenz 1301-1304. Hann tileinkaði Scaligeri-hertoganum Cangrande I lokakafla meginverks síns, La Divina Commedia.
Norðan torgsins er höllin Loggia del Consiglio, austan þess er höllin Palazzo di Cangrande, og í suðurhorninu er höllin Palazzo di Ragione, sem er raunar bakhlið hallarinnar Palazzo del Comune.
Í suðausturhorninu hefur verið grafið niður á leifar hellulagðrar brautar, sem var rómverski þjóðvegurinn inn í borgina.
Scala della Ragione
Við lítum fyrst inn í hallarport Palazzo di Ragione.
Portið var á miðöldum helzti markaður borgarinnar. Af torginu og upp að þáverandi dómsölum borgarinnar liggja voldugar tröppur í síðgotneskum Feneyjastíl, reistar 1446-1450. Sjálf höllin er frá 14. öld.
Næstu skref