13. Dublin – Trinity College

Borgarrölt

St Andrew’s

Við förum úr bankanum og aftur út á College Green, sem sveigist eftir framhlið bankans. Handan torgsins, 100 metrum vestar, er lítil gata, St Andrew Street, upp að St Andrew’s kirkjunni, tæpum 50 metrum ofan torgsins.

Trinity College, Dublin 2

Trinity College

Þar sem St Andrew’s kirkjan er nú, var miðstöð víkinga, þegar þeir réðu í Dublin fyrir tíu öldum. Þá var hér “Þingmót”, þar sem víkingar komu saman til þings á svipaðan hátt og á Íslandi á sama tíma.

Trinity College

Við förum til baka niður brekkuna og austur College Green. Handan torgsins að austanverðu er Trinity College, skáhallt á móti Írlandsbanka.

Trinity College var stofnaður 1592 sem prestaskóli ensku biskupakirkjunnar, en er nú almennur borgarháskóli með 7000 nemendum. Við förum hér inn um aðalinnganginn, sem reistur var 1755-1759, og komum inn á 16 hektara háskólasvæði með mörgum höllum umhverfis steinlagðar stéttir og gróna garða.

Book of Kells

Við stefnum yfir stéttina að strangri höll frá 1712-1732, hægra megin fyrir miðju.

Það er bókasafn skólans, eitt fjögurra höfuðbókasafna landsins. Höllin var áður léttari að svip, þegar opin súlnagöng voru á jarðhæðinni.

Hin frægu fornrit Íra eru í bókasafni Trinity College. Hæst ber þar Kells-bók, fagurlega lýst kálfskinnshandrit guðspjallanna fjögurra á latínu frá upphafi níundu aldar. Bókin er til sýnis í safninu ásamt fleiri dýrgripum af því tagi, svo sem Durrow-bók frá upphafi áttundu aldar, Dimma-bók og Armagh-bók.

Einnig er gaman að skoða aðalsal bókasafnsins, langan og mjóan og háan sal á tveimur hæðum.

Næstu skref