Domus Aurea
Colosseum var reist, þar sem áður var hallartjörn Gullhallar Neros keisara, Domus Aurea. Hann lét reisa höllina árið 64 utan í hæðinni Esquilinum eftir mikinn bruna í Róm. Hún stóð aðeins í fá ár, en varð fræg fyrir íburð, þar á meðal ilmefnaleiðslur. Aðalmatsalurinn snerist í hring eins og veitingasalur Perlunnar.
Með eftirmönnum Neros hófst hinn hvimleiði siður að rífa gömul mannvirki í Róm til að byggja ný. Keisararnir byrjuðu á þessu og síðan tóku páfarnir við. Grunnur hallar Neros var notaður undir baðhús Trajanusar, sem líka er horfið. Merki þessara bygginga, nokkur veggjabrot, má sjá í hlíðinni norðaustan við Colosseum.
Hér er ráð að gera hlé á skoðun og bregða sér í síðbúinn hádegismat í Da Nerone eða Tre Scalini.