Við hinn enda götunnar, vinstra megin, er stærsti og merkasti stúdentagarður götunnar, Garður (Regensen). Hann var reistur 1623-28, en brann að nokkru 1728. Frá þeim tíma eru rauðu tígulsteinsveggirnir, sem setja svip á húsið. Hér getum við gengið inn í portið og setzt um stund við linditréð.
Þegar við komum úr garðinum blasir við Sívaliturn (Rundetårn) handan Kjötmangarans (Købmagergade). Hann var reistur eins og fjöldi frægra húsa að tilhlutan Kristjáns IV konungs 1637-42. Turninn er í senn stjörnusko
ðunarstöð og kirkjuturn Þrenningarkirkju (Trinitatis Kirke), sem er hér að baki, fullbyggð 1656.
Sívaliturn er 36 metra hár og rúmlega 15 metra breiður. Upp hann liggur 209 metra löng snigilbraut, sem rússneska keisaraynjan Katrín ók einu sinni upp í hestvagni, meðan maður hennar, Pétur mikli, fór ríðandi . Upp hann liggur 209 metra löng snigilbraut. Þetta var 1716 og fara engar sögur af slíku framtaki hefðarfólks á síðari öldum.
Það er léttara að ganga upp Sívaliturn en aðra kirkjuturna, af því að brautin er slétt, en ekki í tröppum. Uppi er gott útsýni yfir þök og turna miðborgarinnar. Þar fáum við góða hugmynd um, hve þröngt er byggt innan gömlu borgarmúranna. Hvarvetna lítum við þétt húsþakahrjóstur.