Frá virkinu höldum við áfram N13 alla leið til Letterkenny og förum þar yfir á N56, sem við fylgjum í stórum dráttum alla leið til Donegal, með nokkrum útúrdúrum þó.
Við getum tekið krók frá Letterkenny eftir R245 og síðan R247 til Rathmullan, ef við viljum borða og gista á öndvegishótelinu Rathmullan House. Eftir það förum við R247 og R249 inn á N56, sem er áðurnefnd höfuðleið frá Letterkenny út á Donegal-skaga.
Af N56 förum við til hægri afleggjara til Glenveagh-þjóðgarðs og -kastala. Frá ferðamiðstöð þjóðgarðsins er farið í litlum strætisvögnum til kastalans.
Þjóðgarðurinn nær yfir tæpa 10.000 hektara af skógi og mýrum umhverfis gervikastala í Disney-stíl, sem reistur var við Beagh-vatn 1870 til að búa til rómantískt umhverfi fyrir hallareigandann og gesti hans. Undir niðri er kastalinn hefðbundið sveitasetur í virkisklæðnaði. Þar er nú minjasafn með ríkmannlegum húsbúnaði fyrri eigenda. Aðgangur £1 að garði og £1 til viðbótar að kastala.
Við erum á þessum slóðum í afskekktasta héraði Írlands, eins konar rana, sem gengur úr írska lýðveldinu upp með Norður-Írlandi. Hér erum við komin í gelískar sveitir, eins og við sjáum á mörgum skiltum. Landslagið er skarpt og fremur nakið. Áður hét héraðið Tirconnaill, en nú Donegal, sem er afbökun úr írsku heiti, Dún na nGall, er þýðir virki útlendinga, það er að segja víkinga. Á þessum slóðum er líka talinn bruggaður bezti landi Írlands, Poitin.