13. Miðbær syðri – Piazza Campodoglio

Borgarrölt
Palazzo Senatorio, Roma

Palazzo Senatorio

Piazza Campodoglio

Hægt er að fara út um hliðardyr kirkjunnar, skoða steinfellumyndir yfir dyrunum, og stíga tröppur niður til Piazza Campodoglio. Að öðrum kosti förum við upp hinar tröppurnar, sem áður er getið. Það var Michelangelo, sem hannaði þær eins og torgið ofan þeirra að tilhlutan Páls páfa III 1536 og réð að mestu útliti hallanna við torgið.

Capitolum var guðahæð Rómar. Hér var reist hof Jupiters þegar á etrúskum tíma, á 6. öld f.Kr. Síðar voru þar þrjú hof, Jupiters, Junos og Minervu. Þegar Michelangelo hófst handa, var hin forna frægð lengi búin að vera týnd og geitur hafðar hér á beit.

Torgið er fagurlega steinlagt samkvæmt hönnun Michelangelos. Á mótum trappa og torgs eru gamlar styttur frá keistaratímanum af Castori og Polluxi með hrossum sínum. Þær fundust á Marzvöllum og voru fluttar hingað á 16. öld.

Á miðju torgi er eftirlíking riddarastyttu af Aureliusi keisara frá síðari hluta annarrar aldar. Frummyndin hafði verið flutt hingað frá Laterano-torgi, þar sem hún hafði fengið að vera, af því að menn héldu hana þá vera af hinum kristna Constantinusi keisara. Til skamms tíma stóð sjálf frummyndin hér á torginu.

Miðhöllin við torgið var upphaflega höll öldungaráðs borgarinnar, Palazzo Senatorio, reist 1143 á rústum hins forna Tabularium, og gnæfði yfir Forum Romanum, sem er handan hallarinnar. Michelangelo lét hallarveggina halda sér, en hannaði nýja framhlið, sem var útfærð 1582-1605 af Giacomo della Porta. Hún er nú ráðhús Rómar.

Palazzo dei Conservatori, Roma

Palazzo dei Conservatori

Vinstra megin við miðhöllina er Palazzo dei Conservatori, reist á 15. öld til að hýsa sýslumenn borgarinnar, en endurhönnuð af Michelangelo. Andspænis henni er Palazzo Nuovo í sama stíl, reist 1654. Í báðum þessum höllum eru söfn, meðal hinna beztu í borginni.

Í Palazzo dei Conservatori eru minjar og listaverk, einkum frá fornöld, þar á meðal Spinario, bronsmynd af dreng, sem dregur þyrni úr fæti sér, frá 1. öld f.Kr.; etrúsk bronsmynd af úlfynju, tákn borgarinnar, frá 5. eða 6. öld f.Kr.; og 3. aldar brjóstmynd af Juniusi Brutusi, stofnanda hins forna lýðveldis í Róm. Í safninu er einnig málverkadeild, Pinacoteca Capitolina, með verkum eftir Caravaggio, Cortona, Rubens, Titian og Van Dyck.

Palazzo Nuovo, Roma

Palazzo Nuovo

Í Palazzo Nuovo eru einnig þekktar myndastyttur frá fornöld, svo sem Venus frá Capitolum, eftirlíking af gömlu verki hins gríska Praxitelesar; og Deyjandi keltinn, eftirlíking af bronsmynd frá Pergamon. Þar eru einnig brjóstmyndir allra rómversku keisaranna.

Frá torginu er gengið niður að Forum Romanum vinstra megin við Palazzo Senatorio. Hægra megin við hana er gengið niður Via del Campidoglio, þaðan sem er gott útsýni yfir Forum Romanum. Þetta er hinn forni Clivus Capitolinus, leið skrúðgangna frá Forum upp á Capitolum.

Á þá víkur sögunni að vesturhluta miðbæjarins.

Næstu skref