Santa Maria sopra Minerva
Við göngum vinstra megin við Pantheon að Piazza della Minerva, þar sem er egypzkur einsteinungur frá 6. öld f.Kr. á fílsbaki. Bernini átti hugmyndina að þessari uppsetningu.
Við torgið er Santa Maria sopra Minerva, eina gotneska kirkjan í Róm, frá 1280. Ferhyrnd og einföld framhliðin var endursmíðuð í endurreisnarstíl á 17. öld með óbreyttum dyraumbúnaði frá 15. öld. Framan á kirkjunni hægra megin eru sex skildir, sem sýna hæð nokkurra flóða í borginni fyrr á öldum. Mikil listaverk eru innan í kirkjunni, þar á meðal höggmynd í kórnum af Kristi eftir Michelangelo.
Palazzo Doria
Við förum meðfram kirkjunni hægra megin eftir Via di Santa Caterina da Siena og í beinu framhaldi af henni eftir götunum Via Piè di Marmo, Piazza del Collegio Romano og Via Lata að hinni beinu aðalgötu Via del Corso, sem skilur sundur gamla og nýja miðbæinn.
Frá suðvesturhorni Piazza del Collegio Romano er gengið inn í málverka- og höggmyndasafnið í Palazzo Doria Pamphili, höll frá 1435. Þar má sjá sum af frægustu verkum Caravaggios, svo sem flóttann til Egyptalands; Donna Olimpia eftir Algardi; brjóstmynd af Innocentiusi X eftir Velasquez; og verk eftir Titian, Rafael, Correggio og Carracci-frændur.
Við Via Lata, nálægt horninu við Corso, er þekktur brunnur, Facchino, upp við vegg Banco di Roma. Þetta er höggmynd af drykkfelldum vatnsbera.