St. Bartholomew’s Church
Síðan förum við framhjá hótelunum Intercontinental og Waldorf Astoria og komum að kirkju sömu megin götunnar. Kirkjan er afar skrautleg, í býzönskum stíl, rauðleit á litinn, frá 1919. Við hana er lítill garður, sem stingur í stúf við kuldalega skýjakljúfana í kring. Það gerir raunar einnig kirkjan sjálf.
Dagar kirkjunnar kunna að vera taldir, því að söfnuðurinn er fremur blankur og fær í sífellu girnilegri tilboð í lóðina frá æstum athafnamönnum, sem vilja reisa þar enn einn skýjakljúfinn
Villard Houses
Ef við förum til vinstri inn 51st Street, komum við á næsta horni, við Madison Avenue, að Villard Houses. Það eru þrjú hús frá 1884, hönnuð á þann hátt, að þau líta sameiginlega út eins og ítölsk endurreisnarhöll að utanverðu. Að innan eru þau með skreytingum í svifstíl eða rókokkó.
Þessum byggingarsögulega merku húsum í miðri skýjakljúfaþyrpingunni var bjargað með þeim hætti, að hóteleigandinn Helmsley gerði þau að anddyri, börum og veitingasölum hótelhallar, sem hann reisti að baki.