13. Toledo

Borgarrölt
Toledo

Toledo, dómkirkjan efst fyrir miðju, kastalinn efst til hægri

Toledo

Toledo er ein elzta borg Spánar, sögufrægur 60 þúsund manna miðaldabær, sem stendur á graníthöfða við fljótið Tajo, girtur múr á þá hlið, sem snýr frá ánni. Þetta er einn elzti bær Spánar, lagður þröngum og undnum göngusundum. Toledo var höfuðborg Vestgota og lengst af helzta borg Kastilíu, unz Madrid var gerð að höfuðborg um miðja 16. öld. Hún er enn höfuðborg kaþólsku kirkjunnar, því að æðsti kardínáli landsins hefur þar vist.

Allur gamli bærinn í Toledo er skemmtilegt göngusvæði, allt frá borgarkastalanum Alcázar í austurendanum til klaustursins San Juan de los Reyes í vesturendanum.

Alcázar stendur þar, sem borgarstæðið er hæst, og gnæfir yfir önnur hús í bænum. Í núverandi útliti er kastalinn að mestu frá 16. öld, en hefur síðan brunnið þrisvar og var nær eyðilagður í borgarastyrjöldinni 1936, en hefur verið endurnýjaður í hinni gömlu mynd.

Næstu skref