Palazzo Barbarigo
Aðeins ofar komum við hægra megin að höll með steinfellumyndum.
Steinfellumyndir framhliðar Palazzo Barbarigo skera í augu þeirra, sem fara um Canal Grande. Þær eru í skörpum litum með mikilli gyllingu og fremur ungar, miðað við annað á þessum slóðum, frá 1887.
Ca’ Grande
Aðeins ofar, handan Canal Grande, er umfangsmikil og frístandandi höll, sem ber nafn með rentu.
Eitt þekktasta og bezta verk Sansovino, helzta arkitekts Feneyja í endurreisnarstíl, frá 1545. Að neðan er gróf þrívíddarhleðsla og að ofan samfelld og jöfn bogagluggaröð með súlnapörum á milli.