Við förum aftur út á Kjötmangarann, beygjum til vinstri og göngum þessa bílalausu viðskiptagötu í átt til Striksins. Ef við viljum skoða gömul “brunahús” frá 1728 við Gömlumynt (Gammelmønt), beygjum við til vinstri inn Klörubúðir (Klareboderne) og Möntergade og síðan til hægri í Gömlumynt. Úr henni beygjum við svo enn til hægri eftir Sværtegade og Kronprinsengade til Kjötmangarans.
Við höldum þar til vinstri eftir Kjötmangaranum yfir Silkigötu (Silkegade) niður á Strik, sem hér heitir Amákurtorg (Amagertorv). Þar beygjum við til vinstri eftir að hafa skoðað okkur um á torginu og ef til vill sezt niður á gangstéttarkaffihúsi.
Við göngum Strikið eftir Austurgötu (Østergade), sem er austasti endi hinnar frægu göngugötu. Við förum framhjá litlum þvergötum og Brimarhólmi, sem áður var nefndur í þessari leiðarlýsingu, og höfum auga með þröngu sundi, Pistolstræde, á vinstri hönd.
Af þessu sundi megum við ekki missa. Þar er margt skemmtilegt að skoða, einkum gömul bindingshús. Við göngum í vinkil, framhjá veitingastofunni Alsace (sjá bls. xx ) og komum úr sundinu í Nýju Austurgötu (Ny Østergade). Andspænis okkur er kaffistofan Victor. Við sjáum fallegt bindingshús á horni Nýju Austurgötu og Grænugötu (Grønnegade).
Grænagata er rétt að baki hins fína Kóngsins Nýjatorgs. Hér var áður eitt illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar, fullt af tæplega manngengum sundum, sem voru engir þröngir vegir dyggðarinnar. Hér í Grænugötu ólst myndhöggvarinn Bertil Thorvaldsen upp við drykkjuskap föður og ósamlyndi foreldra.
Nýju Austurgötu göngum við til baka til Striksins, beygjum þar til vinstri og erum eftir andartak komin aftur að Kóngsins Nýjatorgi, nákvæmlega þeim stað, þar sem við hófum hringferðina.
Þetta hefur verið krókaleið um elzta hluta Kaupmannahafnar. Ekki þurftum við nauðsynlega að byrja ferðina og enda á torginu. Við gátum til dæmis byrjað á Ráðhústorgi eða hvar sem betur kynni að liggja við ferðum okkar.
Ef við erum ekki mjög gönguhraust, getum við líka skipt leiðinni í þrjá hluta. Í einum hluta hefðum við þá skoðað Brimarhólm og Hallarhólma og endað á torginu Hábrú við Strikið. Í öðrum hluta hefðum við skoðað kaupmannahverfið, byrjað á Hábrú og endað á Amákurtorgi. Í þriðja hluta latínuhverfið frá Amákurtorgi til Kóngsins Nýjatorgs. Í öllum tilvikum byrja ferðirnar og enda í nágrenni Kóngsins Nýjatorgs.
Næst er að skoða hverfið um Amalienborg.