14. Midtown – Lever Building

Borgarrölt
Lever Building, New York

Lever Building

Lever Building

Eftir að hafa virt fyrir okkur Madison Avenue, förum við til baka út á Park Avenue og höldum hana áfram til norðurs. Brátt komum við á vinstri hönd að Lever House, sem er auðþekkjanlegt vegna dimmbláa litarins á glerveggjunum.

Lever House var reist 1952 eftir hönnun Skidmore, Owings og Merrill í hreinræktuðum módernisma að hætti Bauhaus. Skýjaklúfurinn er sérstakur að því leyti, að hann nýtir loftrýmið ekki út í yztu æsar og leyfir sólarljósinu að streyma niður í kringum sig.

Lever House nýtur svo mikils álits í sögu byggingarlistar, að það fellur undir húsfriðunarreglur borgarinnar. Húsinu má ekki breyta að neinu leyti.

Citicorp, New York

Citicorp

Citycorp Center

Við förum 54th Street til austurs frá Park Avenue ti
l Lexington Avenue
. Þar á horninu blasir við okkur einn  hinna yngri skýjakljúfa borgarinnar, Citycorp Center, frá 1977, teiknaður af Hugh Stubbins, afar sérkennilegur útlits bæði neðst og efst.

Skýjakljúfurinn þekkist langt að vegna bratta skúrhallans, sem er á toppi hans. Upphaflega áttu þar að vera lúxusíbúðir, sem ekki voru leyfðar, og síðan sólarorkustöð, sem ekki reyndist framkvæmanleg. En hallinn þykir vera turninum til fegurðarauka.

Niðri hvílir turninn á voldugum, níu hæða súlum, sem standa ekki undir hornunum, heldur miðjum hliðunum. Fyrir bragðið næst rými á horninu við gatnamótin fyrir kirkjuna St Peter´s, sem kúrir hér undir, í skemmtilegri þversögn við himinháan turn hins veraldlega valds.

Undir Citycorp Center er kjallaragarður. Þaðan er gengt inn í óvenju skemmtilega og líflega verzlunar- og veitingamiðstöð, sem er allt í kringum garðinn. Garðurinn heitir The Market og er þægilegur hvíldarstaður.

Næstu skref