140 húsnæðismilljónir.

Greinar

Eftir linnulaus loforð forsætis- og félagsmálaráðherra um gull og græna skóga húsbyggjendum og kaupendum til handa, er hversdagslegur raunveruleikinn kominn í ljós. Ekki fundust nægir peningar til að efna loforðin.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram fyrir ári, féllu 220 milljónir í hlut Húsnæðisstofnunar ríkisins og Byggingasjóðs verkamanna. Í frumvarpinu, sein nú verður lagt fram, eiga 400 milljónir að fara í þessa tvo staði.

Ef fé til húsnæðismála hefði aukizt milli ára um 20% eins og fjárlagafrumvarpið í heild, stæði talan 260 milljónir í frumvarpinu, sem nú verður lagt fram. Það þýðir, að stjórnin hyggst leggja fram 140 milljónir umfram verðbólgu.

Árangurinn af húsnæðishvellinum er, að ríkið hyggst spara 140 milljónir á öðrum sviðum til að auka húsnæðisfé milli ára um 50% í stað 20%, sem ella hefði verið. Þetta er takmarkaður árangur, en árangur samt.

Svo er það aftur á móti hrein sjónhverfing, þegar ríkisstjórnin bókar 1.200 milljónir til húsnæðismála á lánsfjáráætlun. Þetta fé á nefnilega að koma frá lífeyrissjóðunum, sem hvort sem er lána fé sitt til húsnæðismála.

Með þessum 1.200 milljónum er ekki beinlínis verið að auka húsnæðisfé. Það er verið að færa þær frá einum lánveitanda til annars. Þær fela ekki í sér neitt nýtt átak ríkisstjórnarinnar til fjármögnunar íbúða.

Raunar segir félagsmálaráðherra, að þetta sé einmitt upphæðin, sem lífeyrissjóðirnir mundu hvort sem er láta af hendi í samræmi við gildandi nauðungarsamninga um, að þeir afhendi ríkinu 40% af ráðstöfunarfé sínu.

Hinar sjálfvirku peningauppsprettur og 140 milljón króna aukaátak ríkissjóðs þýða, að á næsta ári getur Húsnæðisstofnunin lánað húsbyggjendum tæplega 30% af verði staðalíbúðar í stað 20%, sem verið hefur á þessu ári.

Þessi 30% eru öflugri tala en virðist við fyrstu sýn. Þau jafngilda nefnilega tæplega 50% af verði vísitöluíbúðar, af því að svokölluð staðalíbúð er miklu stærri en vísitöluíbúð. Það munar því töluvert um peningana.

Lán veðdeildar til tveggja-fjögurra manna fjölskyldna munu hækka úr 389 þúsund krónum í 584 þúsund krónur. Þetta er veruleg framför, þótt enn sé langt í milljónina, sem húsbyggjendur töldu, að sér hefði verið lofað.

Ofangreindar tölur fjalla eingöngu um vanda þeirra, sem hyggjast varpa sér út í kviksyndi húsnæðiskaupa eða -byggingar. Hinn stærri og áþreifanlegri vanda þeirra, sem berjast þegar um í kviksyndinu, á að létta á annan hátt.

Ríkið hyggst bjóða út skuldabréfalán á almennum, innlendum markaði upp á 200-250 milljónir króna. Það fé á að duga til að veita húsnæðislánþegum síðustu tveggja. ára 50% viðbótarlán ofan á þau lán, sem þeir höfðu áður fengið.

Þetta nær skemur aftur í tímann en menn höfða vonað. Ennfremur tekur lausnin ekki tillit til verðbólgunnar frá þeim tíma, er þeir tóku upphaflegu lánin og þangað til þeir fá þessi 50% viðbótarlán.

Í rauninni er þó með öllu þessu búið að gera stórátak í húsnæðismálum, sem ber að lofa. Hitt má svo lasta, að ríkisstjórnin skuli í leiðinni hafa vakið falskar vonir um enn gylltari úrlausn, sem engin leið var að láta rætast.

Jónas Kristjánsson

DV