15 dagar jafngilda þremur.

Greinar

Fjölmiðlar hafa að undanförnu verið gagnrýndir fyrir að segja ekki jafn nákvæmlega frá tilraunum Geirs Hallgrímssonar til stjórnarmyndunar og þeir skýrðu frá tilraunum Steingríms Hermannssonar fyrir jólin.

Á vinstri væng stjórnmálanna hafa heyrzt þær skoðanir, að óháðir fjölmiðlar séu í raun hægri sinnaðir. Þeir vilji ekki veita Steingrími starfsfrið til myndunar vinstri stjórnar. Hins vegar vilji þeir gefa Geir næði og þegi því núna.

Ennfremur er sagt, að mismunur fréttamagns um tilraunir Steingríms og Geirs eigi að telja fólki trú um, að illindi, óeining og upplausn fylgi vinstri flokkunum, en ró og festa fylgi Sjálfstæðisflokknum.

Á hægri væng stjórnmálanna er sumpart trúað þessari ró og festu. Geir er þar líka hrósað fyrir að hafa lag á að forðast fjölmiðla. Enda séu þeir bara til bölvunar á viðkvæmum tímabilum í stjórnmálunum.

Allt eru þetta skemmtilegar skýringar. Svo framarlega sem menn fara ekki að trúa því, að óháðir fjölmiðlar séu hægri sinnaðir. Og svo framarlega sem menn fara ekki að trúa því, að banna beri fjölmiðlun viðkvæmra stjórnmálafrétta.

Staðreyndin er hins vegar sú, að mikið var um að vera í tilraunum Steingríms Hermannssonar til stjórnarmyndunar, en hins vegar gerði Geir Hallgrímsson ekki tilraun til stjórnarmyndunar fyrstu tíu daga umboðs síns.

Hjá Steingrími héldu flokkarnir formlega fundi og lögðu fram formlegar tillögur. Flokkarnir kölluðu til sérfróða menn eftir þörfum og létu meira að segja Þjóðhagsstofnun spá í afleiðingar þessara tillagna.

Geir gerði hins vegar nánast ekkert í tíu daga. Hann leitaði að vísu ráða hjá mönnum eins og Einari Olgeirssyni, Haraldi Steinþórssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni. En slíkar hleranir eru bara undirbúningur að tilraunum.

Geir talaði ekki við Steingrím í heila viku. Og Lúðvík sagðist ekki lengi hafa heyrt neitt frá Geir. Á tímabili héldu alþýðuflokksmenn, að Geir væri að tala við alþýðubandalagsmenn. Hinir síðarnefndu héldu, að. hann væri að tala við hina fyrrnefndu.

Svo áttuðu menn sig á því fyrir síðustu helgi, að þetta var allt saman misskilningur. Geir hafði ekki verið að gera neitt. Fréttaleysið í blöðunum stafaði einfaldlega af því, að ekkert hafði gerzt.

Engir formlegir fundir voru haldnir og engar tillögur lagðar fram. Af símtölum Geirs mátti þó ráða, að hann hefði fyrst og fremst áhuga á myndun þjóðstjórnar og nýsköpunarstjórnar til vara. Allt var þetta þó þokukennt.

Dagblaðið skýrði jafnóðum frá hugmyndum Geirs, fyrst um þjóðstjórn og síðan nýsköpunarstjórn. Síðan skýrði blaðið frá því, að Geir hefði loksins rætt við Steingrím og gefið Leiftursóknina á bátinn. Þetta var fyrir síðustu helgi.

Eftir helgina hefur Dagblaðið skýrt frá því, að formlegir fundir séu hafnir. Ennfremur, að Geir hafi lagt til frestun vísitölu og öfugan tekjuskatt. Einnig, að hann hafi neitað óskum um nánari útfærslu þessara efnahagstillagna.

Þessar fréttir Dagblaðsins af undirbúningi og tilraunum Geirs hafa ekki verið ónákvæmari en fréttirnar af tilraunum Steingríms. Engar hulduaðgerðir hafa farið fram hjá lesendum blaðsins. Geir hefur einfaldlega lítið sem ekkert gert. 15 dagar Geirs jafngilda fyrstu þremur dögum Steingríms.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið