Rosses
Við erum á slóðum, sem kallaðar eru The Rosses, sem þýðir skagar. Lítið er um mannabyggðir og skóga, en þeim mun meira um mýrar og smávötn. Hér er töluverð móvinnsla úr mýrum, eins og raunar víðar í landinu. Efsta torfulagið er tekið ofan og síðan lagt ofan á aftur, þegar búið er að taka nokkrar skóflustungur af mó undan laginu. Þess vegna eru langir mókantar einkennistákn mómýranna (peat bogs) (H5).
Glencolumbkille
Við höldum áfram N56, fyrst um Rosses-mýrar, framhjá Dungloe og Gwebarra unz við erum komin rétt framhjá Ardara. Þar beygjum við til hægri eftir skilti til Glengesh-skarðs. Í skarðinu er í góðu skyggni skemmtilegt útsýni til baka niður dalinn. Við höldum alla leið til Glencolumbkille.
Stórbrotið landslag er í dalnum og við ströndina kringum Glencolumbkille. Hér er talið, að dýrlingurinn Columba, öðru nafni Kólumkilli, hafi setzt að á efri árum, fjarri heimsins glaumi. Hér í dalnum er líka töluvert af forsögulegum mannvistarminjum.
Í þorpinu utanverðu, sunnan ár er héraðsminjasafn í nokkrum húsum, sem hafa verið reist í fátæklegum stíl áranna 1720, 1820 og 1920. Í húsunum eru verkfæri og áhöld, húsbúnaður og húsgögn frá þessum tímum. Aðgangur £1,50 (H5).
Næstu skref