15. Miðbær vestri – Piazza Colonna

Borgarrölt

Piazza ColonnaColonna, Roma

Frá Piazza Sant’Ignazio förum við eftir Via Bergamaschi að Piazza Colonna, sem er á fjölförnum stað á mótum tveggja verzlunargatna, Via del Corso og Via del Tritone.

Súlan á torginu var reist 176-193 til heiðurs Aureliusi keisara og sýnir spíralmyndir úr stríði hans við þjóðflokka á bökkum Dónár. Þessi súla minnir á súlu Trajanusar, en er ekki eins vel gerð. Höggmyndin ofan á súlunni var áður af keisaranum, en er nú af Páli postula.

Að baki súlunni er Palazzo Wedekind með 16 fornaldarsúlum í jónískum stíl. Norðan við torgið er Palazzo Chigi frá 1562-1630, hannað af Giacomo della Porta og síðan Carlo Maderna. Andspænis súlunni, handan Via del Corso, er verzlanahöllin Galeria Colonna með mörgum smábúðum undir einu þaki

Palazzo di Montecitorio, Roma

Camera dei Deputati

Við förum meðfram Palazzo Wedekind inn á torgið Piazza di Montecitorio. Þar er höllin Palazzo di Montecitorio, hönnuð af Bernini og síðan Carlo Fontana, reist 1650-1694. Þar er neðri deild ítalska þjóðþingsins til húsa, Camera dei Deputati. Aðalinngangurinn er ekki frá þessu torgi, heldur frá torginu norðan við höllina, Piazza di Palamento.

Við Piazza Colonna og Piazza di Montecitorio og í nágrenni þeirra eru byggingar stjórnmálaflokka og fjölmiðla. Við Via Uffici del Vicario, sem liggur út frá Piazza di Montecitorio, á nr. 36, er veitingahúsið Piccola Roma.

Þá er bara eftir austurhluti miðbæjarins.

Næstu skref