150 þúsund tonn

Greinar

Flestir talsmenn hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa tekið af raunsæi tillögum Hafrannsóknastofnunar um 150 þúsund tonna þorskveiði á næsta fiskveiðiári. Þeir telja óhjákvæmilegt, að farið verði eftir tillögunum, þótt það kosti mikinn samdrátt þjóðartekna í næstu tvö ár.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins, segir: “Það er ekki hægt að berja hausnum við steininn. ŠEf menn hunza þessar tillögur, er hætta á, að stofninn hrynji.” Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands útvegsmanna, tekur í sama streng:

“Šég tel, að fiskifræðingar viti bezt um ástand fiskistofna. ŠVið verðum að leita allra leiða til að reyna að fara eftir þessum tillögum. ŠVið erum í þessari alvarlegu stöðu í dag, þar sem við höfum hingað til tekið of lítið mark á tillögum fiskifræðinga.”

Eins og oftar áður reynast hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fremur hafa langtímasjónarmið í huga heldur en stjórnmálamennirnir, sem flestir eru ófærir um að hugsa lengra en til næstu kosninga, í þessu tilviki til tveggja ára. Þess vegna munu stjórnmálamennirnir bregðast.

Sjávarútvegsráðherra hefur þegar gefið falskan tón með því að segja óskynsamlegt að veiða meira en 175 þúsund tonn af þorski. Það er röng lýsing á afleiðingum slíkrar ofveiði. Hrapallegt væri að veiða slíkt magn, en óskynsamlegt að veiða meira en 150 þúsund tonn.

Við 175 þúsund tonna veiði mun veiðistofninn halda áfram að minnka og hrygningarstofninn standa í stað, auk þess sem tekin er veruleg áhætta af endanlegu hruni þorskstofnsins, ef nýliðun heldur áfram að vera eins slæm og verið hefur. Slík ofveiði mun fljótt hefna sín.

Ef farið verður eftir 150 þúsund tonna tillögunni, má hins vegar gera ráð fyrir, að þorskstofninn fari að vaxa að nýju og að auka megi veiðina að tveimur árum liðnum. Á fáum árum yrðu heildartekjur þjóðarinnar orðnar meiri en þær verða með veiði, sem er umfram tillögurnar.

Þetta mundi gerast mun hraðar, ef þorskveiðin yrði færð niður í 125 þúsund tonn í þrjú ár. Þá mætti búast við, að veiðin gæti aftur farið yfir 225 þúsund tonn á ári undir lok áratugarins, það er að segja eftir svo sem tvö ár til viðbótar, sem er um það bil fimm ár héðan í frá.

Hafrannsóknastofnunin hefði raunar átt að mæla með 125 þúsund tonna hámarksafla, af því að það er hagfræðilega skynsamlegasta leiðin til að byggja sem hraðast upp verðmætan þorskstofn á nýjan leik. Það má sjá af reiknilíkönum, sem hafa verið gerð af þessu tilefni.

Meira að segja mundi borga sig að taka erlend lán til að brúa bilið milli 125 þúsund og 150 þúsund tonna þorskafla og fækka þannig mögru árunum á síðari hluta áratugarins. Vextir af slíkum lánum yrðu mun minni byrði en tekjutapið af völdum fyrirsjáanlegrar ofveiði.

Það væri þá hlutverk stjórnmálamanna að fara í 150 þúsund tonn sem málamiðlun milli langtímastefnu og skammtímastefnu. Nú er hætt við, að þeir fari í 175 þúsund tonn, sem er mjög hættuleg leið og fjárhagslega óhagkvæm, þegar litið er fimm ár eða lengra fram í tímann.

Forsætisráðherra hefur gefið í skyn, að farið verði fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar, jafnvel enn lengra en sjávarútvegsráðherra hefur sagt. Ummæli beggja markast af þröngum sjóndeildarhring skammsýnismanna, sem miða allt við kosningar eftir tvö ár.

Þjóðin hefur lengi barið höfðinu við steininn, lifað á ofveiði líðandi stundar og jafnvel hlustað á pólitíska skottulækna í fiskifræði. Nú er komið að skuldadögum.

Jónas Kristjánsson

DV