1562 krónur á mánuði

Greinar

Einstæð móðir var nýlega dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í sex mánaða fangelsi fyrir að hnupla jakka, bol og kjól á dóttur sína, að verðmæti 9370 krónur. Hún þarf að sitja þennan geðveikislega dóm, sem er að tímalengd svipaður og fyrir nauðganir og misþyrmingar, sem valda fólki varanlegum skaða.

Það var ungur og nýskipaður dómari, sem fór út af kortinu að þessu sinni, trúr þeirri hefð, að smávægileg auðgunarbrot undirstéttarinnar á kostnað hinna ríku séu alvarlegri en líkamlegt ofbeldi innan undirstéttarinnar eða fjárglæfrar yfirstéttarinnar, ef þeir skipta tugum milljóna eða meiru.

Hefðin liggur sumpart í laganna hljóðan og sumpart í túlkun dómara, sem oftast er í lægsta kanti hins leyfilega, ef um ofbeldi eða fjárglæfra er að ræða. Hvort tveggja er arfur af hugsanagangi gamallar yfirstéttar, er hefur litið á lögin sem hentugt tæki til að halda fátækum puplinum á mottunni.

Ofbeldi innan undirstéttarinnar skiptir litlu í lögum og dómahefð. Ef fylliraftur ber tvo aumingja í höfuðið með riffilskefti, kastar öðrum út úr bíl, aflæðir hann og úðar með málningu, auk tíu svipaðra ofbeldisglæpa, þarf hann að sitja inni í þrjá mánuði, helmingi styttri tíma en móðirin.

Hingað til hefur verið talið, að afkáralegt mat dómstóla á mikilvægi mismunandi tegunda glæpa sé mest að kenna öldruðum dómurum, sem séu frosnir í gömlum hefðum fyrri alda, þegar tilgangur þjóðskipulagsins var að sjá um, að vinnufólk héldi sig möglunarlaust við þrældóminn og flýði ekki á mölina.

Hæstiréttur er hornsteinn þessa ljóta dómkerfis. Hann veitti til dæmis margföldum nauðgara afslátt af tíma í fangelsi, af því að hann gaf fórnarlambinu að éta. Hæstiréttur hefur alltaf séð gegnum fingur sér við líkamlegt ofbeldi og nógu stóra fjárglæfra, en dæmir búðahnuplara eins og terrorista.

Ungi og krumpaði dómarinn, sem dæmdi konuna í sex mánaða fangelsi fyrir að stela vörum að verðmæti 9370 krónur, er ekki að brydda á neinu nýju. Hann er hluti afkáralegrar dómvenju frá miðöldum, sem við þurfum að brjóta niður á leið okkar frá vistarbandi vinnuhjúa til siðvædds nútíma.

Í dóminum yfir konunni, sem hnuplaði jakka, bol og kjól á dóttur sína, endurspeglast botnlaust skilningsleysi á þjóðfélagi nútímans. Þessi dómur eins og margir aðrir slíkir er til þess fallinn að grafa undan réttarríkinu og gera ríkið að gróðrarstíu ranglætis, ójafnaðar og siðleysis.

Einstæð móðir þarf samkvæmt hinum forneskjulega dómara að sitja inni í einn mánuð fyrir hverjar 1562 krónur, sem hún stal. Dómarinn er auðvitað yfirstéttar og heldur starfinu.

Jónas Kristjánsson

DV