Frá torginu göngum við Nieuwe Amstelstraat að ánni Amstel, þar sem er brúin Blauwbrug. Hún er eftirlíking af brú Alexanders lll Rússakeisara yfir Signu í París, byggð 1880, skreytt miklum ljósakúplum. Þaðan er eitt bezta útsýni í borginni, til suðurs að hinni hvítu Magere Brug.
Við Blauwbrug sjáum við sérkennilega gróinn húsbát í eigu listamannsins Bulgar. Þetta er einn af rúmlega 2000 húsbátum á síkjum borgarinnar. Um helmingur þeirra er þar í óleyfi, en borgaryfirvöld hafa ekki mátt til aðgerða, af því að húsbátamenn í Amsterdam eru jafn harðir af sér og hundaeigendur í Reykjavík. Sumir þessara báta eru verstu hreysi, en aðrir eru lúxusíbúðir með öllum þægindum, þar á meðal rafmagni úr landi. Öllum er þeim sameiginlegt að nota síkin fyrir úrgang, en ekki ræsi borgarinnar.
Næstu skref