16. Forna Róm – San Giovanni in Laterano

Borgarrölt

San Giovanni in Laterano, Roma

San Giovanni in Laterano

Hurðir úr Curia, Roma

Hurðir úr Curia, nú í San Giovanni in Laterano

Þegar við komum inn á Laterano-torg, verður fyrst fyrir okkur skírnhúsið, Battistero, á hægri hönd og Laterano-höll beint framundan, en á milli þeirra sést í hlið hinnar fornu kirkju, sem var höfuðkirkja páfastóls fyrir daga Péturskirkju. Til þess að komast að framhlið kirkjunnar, þurfum við að ganga umhverfis Laterano-höll.

Þessi kirkja var endastöð íslenzkra pílagríma sögualdar og Sturlungaaldar. Hingað komu Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson til að fá aflausn synda sinna, því að hér var kirkja páfans í nærri þúsund ár, frá 314 og til útlegðarinnar í Avignon 1309.

Skírnhúsið er jafngamalt kirkjunni. Á 4. öld voru allir kristnir menn skírðir í því. Nokkrar breytingar voru gerðar á því á 5. öld og síðan aftur á 16.
öld.

Gamla páfahöllin er horfin, en í hennar stað er komin höll frá 1586. Hún er erkibiskupsstofa Rómar og ræður páfinn þar ríkjum, því að hann er jafnan einnig erkibiskup Rómar. Þótt San Giovanni sé ekki lengur höfuðkirkja kristninnar, er hún enn dómkirkja Rómar.

Fyrir framan erkibiskupshöllina er stærsti einsteinungur Rómar, frá 15. öld f.Kr., fluttur til Rómar á dögum Constantinusar II.

Þegar við komum fyrir hornið, blasir við voldug framhlið kirkjunnar og veldur strax vonbrigðum, þótt hún sé falleg. Því veldur, að hún er ekki forn, heldur í hlaðstíl frá 18. öld.

San Giovanni in Laterano, Roma 2

San Giovanni in Laterano

Upphaflega var þessi kirkja reist á vegum Constantinusar mikla, þá tileinkuð Kristi og ekki Jóhannesi skírara fyrr en síðar. Þetta var fimm skipa kirkja, sem fór illa í árásum villiþjóða á 5. öld, jarðskjálfta 896 og eldsvoða 1308. Ekkert er raunar talið standa eftir af hinni upprunalegu kirkju, nema einhverjir veggir og hlutar hinnar stóru steinfellumyndar í hvolfi kórbaks.

Innan við kirkjuportið sjáum við voldugar bronshurðir, sem rænt var frá fundarsal öldungaráðsins í hinni fornu Róm. Þar fyrir innan sjáum við hl
aðstílskirkju, hannaða af Borromini og byggða upp úr hinni gömlu kirkju 1646-1650, en þó með fyrra timburlofti frá 16. öld og steinfellumyndinni gömlu. Eitt helzta einkenni kirkjunnar eru risastór líkneski af postulunum tólf, hönnuð af lærisveinum Berninis.

Steinfellumyndin lifði af endurbyggingu á 5. öld og aðra á 13. öld, þegar Jacopo Torriti bætti í hana nýjum atriðum. Borromini lét hana í friði á 17. öld, en svo varð hún á 19. öld fyrir skemmdum, sem hafa síðan verið lagfærðar. Óljóst er, hve mikið af henni er upprunalegt.

Við Laterano-torg er ágætt veitingahús, Cannavota.  Þessari göngu er lokið.

Næstu skref