Við förum yfir Blauwbrug, Bláubrú, og göngum eftir bakka Amstel í átt til Magere Brug, Mögrubrúar, frægustu og fegurstu brúar borgarinnar. Hún er orðin nærri 300 ára gömul og þykir sérstaklega falleg að næturlagi, þegar hún er prýdd ótal ljósum. Þessi mjóa trébrú er mikill umferðarhnútur og sýnir því verndun hennar, hve mikla virðingu borgarar Amsterdam bera fyrir hinu gamla.
Museum Willet-Holthuysen
Frá Magere Brug göngum við til baka meðfram Amstel að Herengracht og göngum þar inn hægri bakka síkisins. Þar komum við fljótt að Museum Willet-Holthuysen á Herengracht 605. Það var reist 1687 sem auðmannsheimili og er nú minjasafn um lífið á slíkum heimilum í þá daga. Allt er þetta svo eðlilegt, að það er eins og fjölskyldan hafi skroppið út fyrir klukkustund, en ekki fyrir tæpum 300 árum.
Að húsabaki er skemmtilegt dæmi um húsagarð eins og þeir tíðkuðust hjá auðugum 17. og 18. aldar borgurum, sem höfðu lítið rými, en reyndu þó að stæla garða franskra aðalsmanna.
Næstu skref