19. Írland – Ballintubber

Borgarrölt

Breaffy

Leiðin liggur sömu leið til baka til Ballina og þaðan N59 og síðan N5 til Castlebar. Frá Castlebar getum við farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst krók úr Castlebar til vinstri eftir N60 í átt til Claremorris, þar sem við komum fljótt að skondnu sveitasetri.

Breaffy House er furðuleg blanda af gömlu og nýju, því að nýtízkulegri gler- og steypuálmu í reglubundnum stíl hefur verið skeytt við gamla og óreglulega höll. Hótelið stendur í stórum og fögrum garði. Það býður meðal annars fiskveiði, skotveiði og hestaferðir.

Ballintubber

Ballintubber Abbey, Írland

Ballintubber Abbey

Við förum sömu leið til baka til Castlebar. Þaðan getum við enn farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst annan krók úr Castlebar til vinstri eftir N84 til enn eins klaustursins, Ballintubber Abbey.

Í gotneskri klausturkirkju Ballintubber Abbey hefur messa verið sungin í 780 ár, án þess að dagur hafi fallið úr, þótt mikið hafi stundum gengið á, og er það sennilega Írlandsmet. Kirkjan var reist fyrir reglu Ágústínusa 1216, en endurbyggð að hluta eftir bruna 1265. Árið 1653 lét Cromwell eyðileggja klaustrið og brenna kirkjuþakið. Nýtt kirkjuþak í upprunalegum stíl var sett á kirkjuna 1966. Inni í kirkjunni eru ýmsir gripir frá 13. öld, svo sem altari.

Newport

Við förum til baka N84 til Castlebar og þaðan R311 til Newport. Í miðbænum förum við yfir brúna á ánni og beygjum strax til vinstri um mikið hlið inn á landareign herragarðs og hótels.

Newport House er gamalt sveitasetur í georgískum stíl, fagurlega klætt gróskumiklum rauðblaða vafningsviði, svo að rétt grillir í gluggana. Húsakynni eru einstaklega virðuleg, til dæmis mikill stigasalur í miðju húsi.

 

Næstu skref