1966-1967 Ritstjóri

Starfssaga

1966-1972: Ritstjóri Vísis (20)

Ritstjóri varð ég 1. september 1966. Fyrstu vikurnar voru stífar. Starfsmenn voru að hætta eða að fara í frí. Ég vann nótt sem nýtan dag við að koma blaðinu út á réttum tíma á degi hverjum. Það bjargaði, að ég fann Jón Birgi Pétursson, sem hafði verið íþróttafréttamaður. Gerði hann að fréttastjóra 1. desember 1966. Hann var hamhleypa til verka, setti hressan anda í fréttirnar og átti auðvelt með mannleg samskipti við blaðamenn. Samstarf okkar Jóns var farsælt um langt skeið og persónuleg samskipti okkar voru mikil. Mér féll það afar þungt, þegar leiðir okkar skildu löngu síðar af öðrum ástæðum.

Jón Birgir Pétursson var íþróttablaðamaður okkar. Skrif hans vöktu athygli mína, voru læsilegri og fjörlegri en annarra blaðamanna. Að því leyti var Jón Birgir á svipuðum nótum og aðrir íþróttafréttaritarar þess tíma. Við flokkspólitískar aðstæður þroskaðist nútíma blaðamennska hraðar í skrifum um íþróttir en í öðrum fréttum. Jón Birgir var líka kjarkmaður, treysti sér til að standa í eldlínunni, þótt á honum stæðu spjót pólitískra varðhunda. Hann náði strax góðum tökum á fréttastjórastarfinu. Án framlags hans hefði Vísir ekki gengið upp sem líflegt, heiðarlegt og fjárhagslega öflugt fréttablað.

Valdimar Jóhannesson blaðamaður varð ritstjórnarfulltrúi 1. janúar 1968. Hann var einstaklega hæfur, hvort sem var við skrif eða stjórn. Ég þekki engan mann höfðingdjarfari en Valdimar. Hann miklaði ekki fyrir sér ráðherra eða aðra stórbokka og hafði hvaðeina upp úr hverjum, sem blaðið þurfti. Með Jón Birgi og Valdimar mér við hlið fannst mér Vísi vera allir vegir færir. Valdimar var samt dýr í rekstri, hætti 9. ágúst 1973 og leitaði grænni haga í rekstri tízkuverzlana og síðar í fasteignasölu. Ég er sannfærður um, að hann hefði náð lengra í fjölmiðlun, ef hann hefði haldið þar áfram.

Ritstjórnarskrifstofum Vísis var skipt í tveggja manna herbergi meðfram ritstjórnarganginum. Valdimar var um tíma í tveggja manna herbergi með Eddu Andrésdóttur, sem síðar varð fréttaþula Stöðvar 2. Allir blaðamenn elskuðu Eddu, sem var glæsilegasta kona eins og hún er enn. Lítt gekk mönnum þó að fara á fjörur við hana. Að lokum fór svo fyrir Valdimar, að hann kom til mín og bað um vistaskipti. Hann héldi ekki lengur út að vera í herbergi með svo fagurri konu. Hún truflaði sig svo, að sér yrði ekkert úr verki. Valdimar varð að ósk sinni og allt varð áfram með eðlilegum hætti á ritstjórninni.

Samskipti mín við stjórn Vísis voru mjög góð. Stjórnarformaður var Kristján Jóhann Kristjánsson í Kassagerðinni. Hann var mikill heiðursmaður og allur af vilja gerður til að koma fleyinu fyrir vind. Aldrei reyndi hann að hafa nein áhrif á efni blaðsins. Og ekki heldur Sigfús Bjarnason í Heklu, sem hafði mikil samskipti við mig. Við Sigfús áttum marga morgunverðarfundi klukkan sex á Hótel Loftleiðum. Ætíð var hann með hugmyndir um, hvernig við gætum aukið sölu blaðsins. Hann hafði mikinn drifkraft, sem smitaði út frá sér. Án daglegs stuðnings Sigfúsar hefði ég hreinlega gefizt upp á puðinu.

Ég sagði Kristjáni í Kassagerðinni og Sigfúsi í Heklu, að tengsl dagblaðs við stjórnmálaflokk væru úrelt fyrirbæri. Aðrar þjóðir væru fyrir löngu komnar út úr því tímabili. Tími væri kominn á breytingar hér. Þeir voru mér sammála, en töldu, að breytingar ættu að gerast hægt. Þannig varð líka þróun mála á Vísi. Það tók mig árabilið 1966-1973 að hreinsa blaðið af óeðlilegu sambandi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég þurfti að losa mig af þingflokksfundum og ég þurfti að losna við Heimdallarsíðu, svo dæmi séu nefnd. Það átti ekki að koma neinum á óvart, að Vísir var á hægri siglingu út úr flokkspólitík.

Sigfús í Heklu andaðist 19. september 1967, er endurreisn Vísis var í miðjum klíðum. Andlátið var mikið áfall fyrir mig. Aðrir stjórnarmenn voru ekki tilbúnir til að verja eins miklum tíma í blaðið og hann hafði gert. Um leið varð fráfall Sigfúsar til þess, að ég varð að læra að standa á eigin fótum. Einnig varð það til þess, að stjórnin áttaði sig. Sá, að framkvæmdastjórar blaðsins á þessum tíma voru ekki nógu miklir kraftaverkamenn til að tryggja framtíð blaðins. Við fráfall Sigfúsar var eins og slæðu væri svipt af ófullnægjandi rekstri. Allir, sem að málinu komu, sáu vandann nakinn.

Árangur björgunarstarfanna var góður, en ekki nógu góður. Okkur tókst að ná niður hrikalegu tapi, en ekki alveg að ná sléttum sjó. Framkvæmdastjórar voru nokkrir árin 1966-1968, en enginn þeirra hafði burði til að snúa rekstrinum við. Augljóst var, að vandinn var ekki ritstjórnarinnar, heldur framkvæmdastjórnarinnar. Það sem okkur vantaði fyrst og fremst var hæfur og duglegur framkvæmdastjóri. Ég tróð marvaðann á blaðinu þessi tvö ár, hélt skipinu á floti, en gat ekki hindrað lekann. Fátækt blaðsins hindraði, að hægt væri að kosta söluhvetjandi aðgerðir. Þetta var slítandi ástand.

Mér varð hugsað til vinar míns, Sveins R. Eyjólfssonar, er ég hafði sem menntaskólastrákur kynnzt í skurðgreftri við Sogsvirkjun. Hann var um þessar mundir sölufulltrúi Skeljungs og hafði rosalegt vit á viðskiptum. Ég spurði hann, hvort ég mætti stinga upp á honum sem framkvæmdastjóra blaðsins. Eftir langa umhugsun féllst hann á það. Ég sagði Kristjáni í Kassagerðinni frá hugmyndinni. Hann tók henni fagnandi og seldi hana stjórninni. Koma Sveins sem framkvæmdastjóri 1. apríl 1968 var kraftaverk. Á örskömmum tíma tókst honum að snúa við rekstri blaðsins og gera það að eðlilegu gróðafyrirtæki.

Samstarf okkar Sveins varð í alla staði frábært. Þegjandi samkomulag var um, að við létum hvor annan afskiptalausan. En við stóðum saman, þegar á reyndi. Aldrei varð ég var við, að Sveinn hvikaði frá þessari vinnureglu. Samgangur okkar var mikill í einkalífinu, grunnmúraður með gagnkvæmum kvöldheimsóknum, sem sumar stóðu fram á morgun. Samskiptin við stjórnina lentu einkum á Sveini, en ég hélt mig meira til hlés. Helztu áhugamenn í stjórninni um velferð blaðsins voru Björn Þórhallsson, sem var fyrir Kassagerðina, og Pétur Pétursson fyrir Lýsi. Voru þeir báðir hinir mestu drengskaparmenn.

Næsti kafli