1972-1975: Ritstjóri Vísis (26)
Mesta bylting blaðsins á þessum árum var offset-prentunin í Blaðaprenti, sem hófst 24. janúar 1972. Í heilt ár höfðum við Sveinn Eyjólfsson verið meira eða minna uppteknir af breytingunni. Málið hófst í Noregi, þar sem dagblöð krata höfðu sameinast um einn tæknikontór í Osló. Þar réð ríkjum Johan Ona stórsnillingur. Hann var að tæknibylta dagblöðum krata um þessar mundir. Íslenzkir kratar fengu hann til Íslands í ársbyrjun 1971 til skrafs og ráðagerða. Haldinn var fundur á Hótel Sögu með öðrum dagblöðum en Mogganum. Þar var eðalkratinn Pétur Pétursson og kynnti Ona fyrir fjölmiðlungum.
Fljótlega fóru menn að geispa á fundinum og viku af hólmi einn af öðrum. Að lokum vorum við Sveinn R. Eyjólfsson orðnir einir með Johan Ona. Sátum við með honum allan dag fram á nótt og síðan áfram eldsnemma að morgni næsta dags. Tillögur hans, sem ollu syfju annarra, voru eins og opinberun fyrir okkur Svein. Við ákváðum að taka upp merkið, vinna málið áfram og afla því fylgis. Framtíðin var í offset-prenttækni að okkar mati. Við áttum síðan í góðu samstarfi við Ona og skrifstofu hans í Osló. Kratar grínuðust með, að kratar hefðu flutt inn Ona og kapítalistarnir á Vísi hefðu svo gleypt hann.
Við settum okkur inn í öll smáatriði tækninnar, sem var gerólík þeirri, er fyrir var. Settum upp framleiðsluáætlun, sem sýndi betri prentun, meiri lit og minni kostnað. Bjuggum til verðlagningarkerfi, sem tók tillit til stærðar dagblaða, prentmagns, litanotkunar og svo framvegis. Smíðuðum greiðsluplan, sem gerði ráð fyrir, að fjárhagsvanda dagblaðanna yrði ekki velt yfir á sameiginlegu prentsmiðjuna. Þetta gerðum við Sveinn einir. Planinu tróðum við upp á stjóra hinna dagblaðanna, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins. Stofnuð var prentsmiðjan Blaðaprent. Ég var fyrsti stjórnarformaður hennar.
Rekstur prentsmiðjunnar hófst 24. janúar 1972 og gekk nákvæmlega eins og til var sáð. Samstarf málsaðila varð gott frá upphafi. Hugmyndafræðin gekk upp, blöðin greiddu gjöld sín skilvíslega. Prentunin var bylting í dagblaðaútgáfu landsins. Hún var hrein og skýr, hönnun varð auðveldari og frjálslegri, litanotkun jókst hröðum skrefum, myndir urðu ódýrar, blöðin stækkuðu. Fjögur dagblöð komust á einum degi úr vítahring úreltrar tækni. Þar sem öll tæknin var spánný var þetta ein fullkomnasta dagblaðaprentun heims. Ég hef aldrei verið viðriðinn ráðagerð, sem gekk upp eins fullkomlega og Blaðaprent.
Sambúðin versnaði, þegar Kristinn Finnbogason varð framkvæmdastjóri Tímans. Hann vildi ýta fjárhagsvanda blaðsins yfir á Blaðaprent. “Textar verða ekki hækkaðir,” sagði hann. Var þó skýrt kveðið á um þau atriði í stofnsamningi Blaðaprents. Þetta var stundum þreytandi, en inni við beinið var Kristinn hinn bezti karl. Mér lynti ágætlega við hann, en innan Tímans var eilífur eldur umhverfis kraftaverkamanninn. Fulltrúi Alþýðublaðsins í Blaðaprenti var ljúfmennið Ásgeir Jóhannesson í Innkaupastofnun ríkisins, sem mig minnir að hafi orðið næsti formaður Blaðaprents. Hann lægði öldur í fyrirtækinu.
Kristinn bauð mér einu sinni að loknum stjórnarfundi í Klúbbinn, helzta skemmtistað landsins. Kristinn var þar meðeigandi með ýmsum þekktum Framsóknarmönnum og kraftaverkamönnum. Hann fann dálítið til sín, fór með mig á einn af sjö börum hússins, bauð mér koníak. Barþjónn kom með risavaxið belgglas og hellti í botninn á því eins og lög gera ráð fyrir. “Meira” sagði Kristinn og þjónninn bætti öðrum sjússi ofan á. “Meira” sagði Kristinn og þjónninn hellti upp í belginn, þar sem hann var breiðastur. “Fylla” sagði þá Kristinn. Glasið var hellt fleytifullt og rúmaði treikvart flösku.
Nýjar ritstjórnarskrifstofur Vísis voru innréttaðar á hæðinni ofan við Blaðaprent í Síðumúla 21. Húsnæðið var allt á langveginn og vistuðust menn í básum við langan gang. Við annan enda gangsins var opinn salur, þar sem komið var fyrir hringborði. Það kölluðum við Pottinn, því að þar var hrært í pottum ritstjórnar. Fundir voru haldnir þar og þar sat fréttastjóri eða staðgengill hans með hönnuði blaðsins og raðaði inn á síður. Potturinn var miðlægur í starfi ritstjórnar, þar voru mikilvægustu störfin unnin. Æ síðan var pottur þungamiðjan í fyrirkomulagi ritstjórna, þar sem ég kom að verki.
Erfiðasti þátturinn í undirbúningi Blaðaprents voru samskiptin við Hið íslenzka prentarafélag. Þar var þá formaður hinn mesti þverhaus, sem ég hef kynnzt, Þórólfur að nafni. Hann rak brezka stefnu, vildi hafa gamla menn á fullu kaupi við að horfa á nýja tækni, sem átti engar rætur í gamla blýinu. Við þurftum hins vegar fólk til að vélrita á eins konar ritvélar og til að brjóta um með skærum og reglustriku. Ótal fundi átti ég með Þórólfi án þess að neitt kæmi út úr því. Að lokum kaus ég að leiða hann hjá mér og semja beint við verðandi starfsmenn. Ekkert verkfall hlauzt af þessari spennu.
Þessi árin tók ég þátt í ýmsum fínimannsleik. Var forseti og formaður hér og þar. Til dæmis forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Löngu síðar áttaði ég mig á, að allt var þetta misskilningur, sem höfðaði ekki til mín. Seint á níunda áratugnum var ég kominn út úr öllu félagastússi. En á þessum tíma ævinnar, árin upp úr 1970, kunni ég ekki að velja og hafna. Var á bólakafi í ýmsum málum, sem ég hélt, að kæmu mér við. Ég fór meira að segja að leika golf og fá einkatíma í golfi. Á Seltjarnarnesi á þessum tíma var mikill samgangur milli heimila og við hjón vorum um hverja helgi í slíku stússi.
Magnús Erlendsson var á þessum tíma áhrifamaður á Seltjarnarnesi, um tíma forseti bæjarstjórnar. Hann var mikill húmoristi og grínari, tók pólitíkina mjög frjálslega. Hann fékk mig til að taka þátt í bæjarmálum, gerði mig að skólanefndarmanni, síðan formanni skólanefndar og loks formanni fræðsluráðs Reykjanesumdæmis. Á þessum árum var byggður Valhúsaskóli, einstaklega vel heppnað og glæsilegt skólahús frá 1974. Ég hafði frumkvæði að ráðningu Ólafs Óskarssonar landfræðings sem skólastjóra. Var hann þar skólastjóri allt til loka ævistarfsins, vel virtur af öllum, sem kynntust honum í starfi.
Sem formanni skólanefndar tókst mér að sannfæra meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn um hvetjandi greiðslur til kennara. Þeir fengu greiðslur fyrir að sækja námskeið, sem áttu að efla þá sem kennara. Vitað var, hvað þetta mundi kosta og voru menn samþykkir. Magnús Erlendsson bar þetta mál fram í bæjarstjórninni. Þegar til kastanna kom, fékk Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri hland fyrir hjartað og féll frá samkomulaginu. Ég hafði þá ekki lengur stuðning annarra í meirihlutanum. Þeir þorðu ekki að sitja og standa öðruvísi en með samþykki hins einráða bæjarstjóra. Ég hætti auðvitað.
Ég var í Rótarý á Seltjarnarnesi, meira að segja fyrsti kjörni forsetinn í félaginu. Smám saman gerðist ég þó fráhverfur. Ólafur Ragnar Grímsson var þá búsettur á Nesinu. Ég vildi fá hann sem félaga. Því höfnuðu menn alveg, af pólitískum ástæðum. Ég vildi fá konur í félagið, sem þá var nýbúið að leyfa. Félagsmenn voru ekki heldur á því. Það var ekki fyrr en löngu síðar, að konur voru teknar inn í félagið. Loks var ég ósáttur við, að sjóðurinn Rotary Foundation var rekinn með 25% kostnaði við stjórnun. Ég taldi það sjóðsrán, en félagsmenn voru á öðru máli. Ég átti ekki heima þarna og hætti.
Ég tók 12. júní 1973 upp á að merkja leiðara með upphafsstöfum höfundar. Það tíðkaðist ekki í þá daga og olli raunar smávægilegri geðshræringu innan stjórnar blaðsins. En ákvörðunin fékk að standa. Allir leiðarar mínir frá þeim degi og æ síðan eru aðgengilegir á vefsvæði mínu, www.jonas.is. Það er orðinn mikill bálkur 4000 leiðara og ber vitni um hægfara breytingar á skoðunum um langt skeið. Að lokum fór svo, að ég heillaðist af þessu formi, sem ég hafði verið svo fráhverfur í upphafi. Þegar ég var seztur í helgan stein, hélt ég áfram að skrifa daglega örleiðara í afar knöppu formi.