1979-1981 Dagblaðið fullburða

Starfssaga

1979-1981: Ritstjóri Dagblaðsins (37)

Dagblaðið háði grimmilega baráttu við Vísi, sem varð að feta í fótspor Dagblaðsins í átt til frjáls og óháðs blaðs. Slagurinn varð dýr, blöðin gáfu bíla í áskrifendaverðlaun. Samt var Dagblaðið rekið með ofurlitlum hagnaði öll sín æviár. En ekkert var afgangs til að byggja upp framtíðina. Við vorum ofan á, höfðum mun meiri sölu en Vísir. En þar voru sterkir peningamenn að baki, sem höfðu burði til að borga tap. Á endanum fóru menn að ræða saman að tjaldabaki um sameiningu síðdegisblaðanna. Einokun var auðvitað auðveldari leið til góðrar afkomu heldur en blóðugt stríð á samkeppnismarkaði.

Mér var sagt frá þessum hugmyndum mánuði áður en þær urðu að veruleika. Ég setti mig strax á móti þeim. Sagði Sveini R. Eyjólfssyni, að siðferðileg staða Dagblaðsins væri einstök í sinni röð. Ekki væri hægt að sjá, hvernig okkur reiddi af í almenningsálitinu eftir sameiningu. Hins vegar taldi ég engin tormerki á góðu samstarfi milli starfsbræðra á dagblöðunum tveimur. Á endanum sá ég, að sameining yrði ekki stöðvuð með góðu móti. Fjárhagslegar væntingar voru yfirþyrmandi og ég hafði sjálfur fullyrt, að samstarf mundi takast milli manna. Sameining varð svo að veruleika 26. nóvember 1981.

Spá mín reyndist rétt. Samstarfið gekk prýðilega frá fyrsta morgni. Menn unnu vel saman og peningar flæddu í hús. DV varð að stórveldi. En úti í bæ töldu margir okkur hafa svikið almenning. Ómar Valdimarsson vildi ekki vera fréttastjóri lengur. Í rauninni varð DV betra blað en Dagblaðið hafði verið, en það naut aldrei sömu hylli almennings. Í augum fólks var DV ekki blað “litla mannsins”, heldur fjölmiðlarisi, sem laut lögmálum viðskiptalífsins. Við hefðum betur puðað áfram í fátæktinni, á endanum hefðum við sigrað. En þægindi einokunarinnar voru freistandi og trufluðu dómgreind okkar allra.

Hagvangur mældi lestur dagblaðanna í fjölmiðlakönnun um allt land í febrúar og mars 1981. Þá mældist Morgunblaðið með 67% lestur, Dagblaðið með 48% lestur, Vísir með 39% lestur, Tíminn með 29% lestur, Þjóðviljinn með 19% lestur og Alþýðublaðið með 6%. Þetta sýndi líflegan fjölmiðlamarkað, þar sem staða Dagblaðsins var sterk, mun betri en Vísis. Niðurstaða sameiningar síðdegisblaðanna varð líka sú, að nýja blaðið líktist meira Dagblaðinu en Vísi. Var líkast því sem Dagblaðið hefði gleypt Vísi með húð og hári. Að vísu var raunveruleikinn ekki svona einfaldur. Vísismenn höfðu líka áhrif.

Ég bar aldrei neina virðingu fyrir Mogganum. Vissi of mikið um fréttir, sem blaðið birti ekki af pólitískum og öðrum ástæðum. Fyrirleit þá, sem sníktu sér gott veður þar á bæ. Var hissa á vinstri pólitíkusum, sem álitu heimsókn á miðilsfundi Styrmis Gunnarssonar vera þrep á framabraut sinni. Mogginn var að mínu viti ekki fjölmiðill, heldur stofnun með trúarlegu ívafi. Þar voru ritstjórarnir æðstu prestar. Þótt ég skrifaði yfir tuttugu bækur, voru þær aldrei ritdæmdar í Mogganum. Því að ég átti að koma skríðandi til Styrmis eða Matthíasar, sem ég gerði ekki. Ég skil ekki hátt álit manna á Mogganum.

Góðkunningi minn, Magnús Óskarsson húmoristi fékk mig með í að ráða Geir Hallgrímssyni heilt fyrir kosningarnar 1979. Ekki man ég ráðin. Hafa ekki verið merkileg, því Geir tók ekkert mark á þeim. Hittum Geir af því tilefni. Kom fyrir sem maður, er ætti ekki heima í pólitík. Virtist ekki geta tekið ákvarðanir, líkur Geir H. Haarde að því leyti. Ég held, að ættirnar, sem nú heita kolkrabbinn, hafi dubbað Geir upp í pólitík, því að hann var kurteis, kom vel fyrir. Líkt og síðar var gert við Bjarna Benediktsson yngri. Geir var persóna, sem hafði ekki roð við pólitíkusi á borð við Gunnar Thoroddsen.

Við Magnús gáfum í framhaldi af þessu Birgi Ísleifi Gunnarssyni borgarstjóra ráð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1982. Við vildum, að Birgir yrði grænn borgarstjóri. Legði græna trefla um borgina, til dæmis milli Elliðaárdals og Laugardals. Slíkt var þá ekki enn komið í tízku. Hittum Birgi, sem virtist vera alveg mállaus og skoðanalaus. Ég hef aldrei hitt pólitíkus, sem kom eins aulalega fyrir og Birgir. Það var eins og hann væri í öðrum heimi og heyrði ekki orð manna í umhverfinu. Mér kom ekki á óvart, að hann féll í kosningunum. Hann fór ekki eftir neinu, sem við Magnús ráðlögðum honum.

Þessi ár umgekkst ég pólitíkusa. Sem ritstjóri fékk ég boð um að mæta í hanastél sendiráða og í ráðherraveizlur. Framan af hafði ég ekki vit á að forðast slík samkvæmi. Sama fólkið mætti við öll þessi tækifæri og leit á sig sem eins konar lávarðadeild samfélagsins. Mér er fátt minnisstætt úr samkvæmum af þessu tagi. Ég náði ekki einu sinni fréttapunktum úr þeim. Snerust einkum um smámuni, “small talk”, milli skrifstofustjóra ráðuneyta. Þegar ég þroskaðist hætti ég að sækja slík boð og datt löngu síðar út af boðslistum. Einstaka atriði eru mér þó enn minnisstæð frá þessum tíma.

Fyrst man ég eftir Davíð Oddssyni sem borgarstjóra í boði hjá Steingrími Hermannssyni í Ráðherrabústaðnum, líklega 1983. Tilefni hanastélsins er löngu gleymt, en myndin lifir enn. Menn voru tveir og þrír saman á stangli í stofunni, fimm umhverfis Steingrím og tólf kringum Davíð. Hann stóð sperrtur og sagði skemmtisögur, hverja á fætur annarri. Menn mændu á sögumann, hlógu óskaplega. Hann átti partíið eins og hann átti síðar landið allt. Þarna kom hann fram sem fullgerður dáleiðandi, skyggði meira að segja á gestgjafann. Þá þegar fór ég að efast um, að Davíð væri heppilegur greifi fyrir þjóðina.

Davíð varð forsætis og hafður í miklum metum hjá meirihluta þjóðarinnar. Ég hafði þó alltaf efasemdir, enda tel ég greifa vera hættulega. Kunni hann mér litlar þakkir fyrir, en kallaði mig þó aldrei inn á teppi eins og suma aðra. Né fylgdist hann með stöðunni á bankareikningi mínum, enda eftir litlu að slægjast. En almennt þroskaðist hann ekki við upphefð sína, heldur gekk sömu götu og flestir aðrir greifar mannkynssögunnar. Hann ofmetnaðist, taldi sig einan eiga öllu að ráða í samfélaginu öllu. Taldi aðra sitja á svikráðum við sig. Slíkar breytingar til hins verra einkenndu síðari hluta ferils hans.

Reiðiköst Davíðs Oddssonar urðu síðar fræg og ágerðust með aldrinum. Voru verri í Seðlabankanum en þau höfðu verið í ríkisstjórninni. Ólafur Arnarson segir frá sumum þeirra í Sofandi að feigðarósi. Í auknum mæli snerist hugsun Davíðs um fjölmarga óvini og hvernig hann gæti klekkt á þeim. Sjúk hugsun fléttaðist við störf hans sem ráðherra og einkum í Seðlabankanum. Ég líkti Davíð snemma við Mussolini og hegðun hans staðfesti það. Samanlagður ferill Davíðs er skelfilegur. Einkabankar án eftirlits, þúsundmilljarðarugl í bankamálum. Enginn orsakavaldur hrunsins kemst nálægt Davíð Oddssyni.

Næsti kafli