1983-1990 DV stórveldi

Starfssaga

Aðalfundir Dagblaðsins og síðan Dagblaðsins sem helmings hluthafa í DV voru ekki langvinnir. Stóðu oftast tíu mínútur. Björn Þórhallsson stjórnaði af röggsemi og þoldi ekkert kjaftæði. Ég var oftast fundarritari og náði ekki að skrifa mikið niður. Eitt sinn var til umræðu lagabreyting um afnám forkaupsréttar. Ég bókaði réttilega, að hún hefði verið samþykkt. Færði samt ekki inn breytinguna, vísaði bara í fylgiskjalabók. Þar voru lögin aldrei færð inn. Þetta varð löngu síðar að dómsmáli. Í því efuðust kærendur um, að sala hlutabréfa hefði verið byggð á raunverulega samþykktum lagabreytingum.

Dómsmálið olli mér nokkru hugarangri. Kærður var Sveinn Eyjólfsson og kærendur voru bróðir hans Ólafur Eyjólfsson og fyrrum einkavinur Sveins, áðurnefndur Benni í Shell. Þarna höfðu orðið mikil vinslit milli bræðra og vina. Ég var kallaður fyrir dóm sem vitni, hafandi verið fundarritari á hinum umdeilda aðalfundi. Ég gat ekki sagt annað en það, sem satt var, að fundurinn hefði snúist um afnám forkaupsréttar. Það var Sveini auðvitað í hag og ég fékk litlar þakkir kærenda fyrir. Dómarinn úrskurðaði Sveini í vil, en ég hef æ síðan skammast mín fyrir lélegan frágang fundargerðar.

Mikil læti urðu í tengslum við frjálsa útvarpsstöð, sem DV stóð fyrir í verkfalli ljósvakamiðla, sem hófst 2. október 1984. Stöðinni var lokað með fógetavaldi tæpri viku síðar. Varð við það tækifæri uppþot í Síðumúlanum framan við ritstjórn DV. Ég varð að fara út og róa mannskapinn. Frá þessum atburðum er sagt í bók Guðjóns Friðrikssonar: Nýjustu fréttir. Þetta var fréttaútvarp, sem naut vinsælda og gerði veg DV góðan. Helzti skipuleggjandi útvarpsins var Jóhannes Reykdal. Hann var þá orðinn skrifstofustjóri DV, gamall hönnuður af Dagblaðinu. Hef ég framar í þessari bók sagt frá honum.

Fréttaskot komu til sögunnar 29. marz 1984. Þá var opnaður símsvari, sem fólk gat hringt í með hugmyndir að fréttum. Ef þær leiddu til fréttaskrifa, var greitt fyrir hugmyndina. Mánaðarlega var dregin út bezta hugmyndin. Við notuðum hugmyndirnar ekki beint sem fréttir. Heldur unnum við fréttir, þar sem hugmyndirnar voru sannreyndar samkvæmt góðri siðvenju blaðamanna. Þetta reyndist vera frábær aðferð við að þefa upp fréttir, sem ella hefðu ekki legið á lausu. Daglega komu upp atriði, sem við hefðum misst af að öðrum kosti. Fréttaskotin voru raunar árum saman hornsteinn fréttaskrifa blaðsins.

25. nóvember 1985 var DV orðið að stórveldi í fjölmiðlun. Þann dag flutti blaðið í sérhannað blaðhús að Þverholti 11. Við vorum orðin ofan á í lífinu, rákum blað, sem var eftir mínu höfði. Það var óháð og frjálst, tortryggið á yfirstéttir landsins, stutt af almenningi. Allir póstar, sem ég hafði komið upp á Dagblaðinu, blómstruðu á DV. Auk þess gátum við gert hluti miklu betur en áður, jafnvel lagzt í rannsóknarvinnu. Eiríkur Jónsson var sendur í þrjár vikur til Amsterdam. Hann kannaði stöðu borgarinnar sem miðstöðvar í innflutningi fíkniefna til Íslands. Rannsókn, sem óvíst var, að skilaði sér.

Ég skrifaði um þessar mundir þrjá leiðara í viku í stað fimm, sem ég hafði skrifað á Dagblaðinu. Hafði því betri tíma til að vanda mig. Vonandi sá þess stað í blaðinu. Pólitískar hugmyndir mínar voru orðnar mótaðar og þroskaðar um þetta leyti. Þær voru alveg lausar við að vera flokkspólitískar. Enginn þrýstingur var á mig eða aðra leiðarahöfunda um að sveigja sjónarmiðin í þágu hagsmunaaðila úti í bæ. Ellert B. Schram skrifaði ekki flokkspólitíska leiðara heldur. Þótt hann væri þá enn tengdur flokknum sem þingmannsefni og þingmaður. Þetta voru fínir tímar fyrir frjálsa fjölmiðlun í Þverholti.

Vinnuskilyrði voru frábær á nýja staðnum, skrifstofur stórar og bjartar. Efsta hæðin var mötuneyti starfsfólks. Sama dag og við fluttum var tekin í notkun tölvusetning. Hún fól í sér, að blaðamenn vélrituðu greinar sínar beint inn í tölvukerfið. Þetta er sú tækni, sem notuð er enn þann dag í dag. Í nóvember 1985 var DV þannig komið inn í nútímann í stóru blaðhúsi, fullu af tæknigöldrum og fullt af þjálfuðu starfsliði. Þetta var upphafið að tíu ára stórveldistíma. DV var orðið að eins konar risaeðlu, sem fraus síðan í notalegu ástandi og átti síðar erfitt með að mæta nýjum aðstæðum um 1995.

Guðmundur Egilsson varð tölvugúru fyrirtækisins. Tók meðal annars við þeirri vinnu, sem ég hafði unnið við dagbókarkerfi blaðamanna. Hann var nærgætinn maður. Skipti aldrei skapi, þótt tölvuhræddir blaðamenn görguðu úr ýmsum áttum. Átti einstaklega auðvelt með að umgangast fólk, aðstoðaði það af stakri ljúfmennsku. Guðmundi var að þakka, að tölvuvæðing fyrirtækisins gekk snurðulaust. Hann var ekki tölvumaður að menntun, heldur bókbindari. Þekking hans á tölvum og hugbúnaði jafnaðist þó á við beztu fagmanna. Og ekki lét hann sig heldur muna um að semja forritsbúta, þegar við þurftum á að halda.

Litlar breytingar urðu á DV áratuginn 1985-1995. Útlit blaðsins var tekið í gegn af heimsfrægum sérfræðingum og lagfært hér og þar. Litur var smám saman tekinn upp í öllu blaðinu. Við lok tímabilsins var DV orðið eins faglega unnið og dagblöð gerast bezt erlendis. Við höfðum aðgang að könnunum, sem sýndu, hvernig við gætum bezt gert lesendur okkar ánægða. Engin teikn voru um, að fljótlega mundi fara að halla undan fæti. Dagblöð voru samt komin á undanhald í Bandaríkjunum. Þar var komin til sögunnar kynslóð, sem kaus að notfæra sér ekki dagblöð í daglegu lífi. Sú breyting kom síðar til Íslands.

Mikið var rætt um að breyta útkomutíma, færa hann yfir á morgnana. Reynslan erlendis sýndi, að síðdegisblöð heltust úr lestinni. Aldrei fannst okkur samt hugmyndin nógu góð og ekki varð úr framkvæmd hennar. Ekki fyrr en með endurreisn blaðsins eftir tíma Óla Björns Kárasonar. Rætt var um að herða fréttamennsku blaðsins, færa hana nær erlendum götusölublöðum. Við töldum viðskiptavini ritstjórnar, lesendur blaðsins, samt ekki spennta fyrir slíkri breytingu. Ég tók þó löngu síðar þátt í henni, þegar Gunnar Smári og Mikael Torfason ráku blaðið. Hvorug þessara hugmynda gekk upp, þegar á reyndi.

Næsti kafli