199 mílna lögsaga?

Greinar

Eftir hrakförina gegn rússneska landhelgisbrjótnum er heldur lágt risið á landhelgisgæzlunni. Síðustu daga hefur borið á því, að erlendir togarar fari svo sem hálfa sjómílu inn fyrir 200 mílna fiskveiðilögsöguna. Hefur tveimur togurum verið stuggað út fyrir 200 mílur.

Samkvæmt þessu hefur verið tekin upp ný stefna í landhelgisgæzlu. Búið hefur verið til grátt svæði innan 200 mílnanna, þar sem ekki gilda togaratökur og dómsmál, heldur aðvaranir og áminningar. Afleiðingin er, að brotum á gráa svæðinu hefur skyndilega fjölgað.

Landhelgisgæzlan vill auðvitað ekki óð og uppvæg leggja í mikinn kostnað við eftirför og uppgöngu í skip landhelgisbrjóta, ef hún fær síðan fyrirmæli frá dómsmálaráðherra um að láta skipið í friði. Ódýrara er að sigla um og senda skipstjórum tóninn í talstöð.

Vægðar- og sparnaðarstefnan hefur hliðarverkanir. Erlendir fiskiskipstjórar missa virðingu fyrir gæzlunni og komast á þá skoðun, að það sé eftirmálalaust að læðast lítillega inn fyrir 200 mílna mörkin. Ef til þeirra sjáist, fái þeir aðeins tiltal, en engan kostnað.

Þetta er svipað og þegar borgin lét setja upp myndavélakassa við Miklatorg, en setti engar myndavélar í kassana. Þegar ökumenn áttuðu sig á, að kassarnir eru ekki notaðir, létu þeir umferðarreglur sem vind um eyru þjóta, rétt eins og engir kassar væru á staðnum.

Íslenzkir ráðamenn hafa aldrei viljað taka afleiðingunum af sigri í deilunum um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Í stað þess að byggja upp löggæzlu fyrir margfalt stærra hafsvæði en áður, var landhelgisgæzlan látin drabbast niður í fjársvelti og úreltum skipakosti.

Um þessar mundir er með veikum mætti verið að reyna að halda uppi lögum á 200 mílum með tækjakosti, sem hentar 12 mílna lögsögu. Aðeins tvö skip geta verið úti og flug er stopult, því að fjárlög ríkisins gera alls ekki ráð fyrir neinum landhelgisbrotum.

Fæst landhelgisbrot komast því upp og ríkið hefur ekki ráð á að fylgja þeim fáu eftir, sem upp komast. Þetta þýðir í raun, að íslenzka ríkið hefur ekki reynzt hæft til að takast á herðar þær skyldur, sem fylgja alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Á þetta reyndi, þegar landhelgisgæzlan vaknaði óvart til lífsins, veitti rússneskum togara samfellda eftirför og tjáði sig hafa aðstöðu til að senda menn um borð til að taka þar skipstjórnarvöld. Íslenzki dómsmálaráðherrann heimtaði þá, að togarinn yrði látinn í friði.

Eftir afskipti dómsmálaráðherra er augljóst, að landhelgisgæzlan leggur ekki aftur í hliðstæðan eltingaleik. Hér eftir getur hún bara áminnt landhelgisbrjóta. Óhjákvæmilegt er, að þeir færi sig upp á skaftið á næstu dögum og vikum. Eyða í löggæzlu er alltaf misnotuð.

Spurningin er því núna, hver fiskveiðilögsagan sé um þessar mundir. Er hún 199 mílur eða minni? Erlendir landhelgisbrjótar munu smám saman færa sig lengra inn fyrir til að kanna, hversu stórt gráa svæðið er. Kannski er fiskveiðilögsagan 195 mílur í raun. Eða 190 mílur.

Löggæzluóvissa af þessu tagi er skaðleg. Heppilegast er, að mörk laga og lögleysis séu klippt og skorin. 200 mílna fiskveiðilögsaga á að þýða 200 mílna fiskveiðilögsögu og ekkert annað. Grá svæði eru alltaf til vandræða og kalla jafnan á útþenslustefnu lögbrjóta.

Ofurvarfærni landhelgisgæzlunnar stafar af fjárskorti ríkisins og sameiginlegri skoðun dómsmála- og utanríkisráðherra, að útlendinga megi alls ekki styggja.

Jónas Kristjánsson

DV