1990-2002: Hápunktur DV (28)
Gallinn við götusölublöð er vanþekking þjóðarinnar, sem þekkir varla slík blöð nema af afspurn. Íslendingar eru upp til hópa fullir af hræsni og yfirdrepsskap. Þeir sætta sig með semingi við fjölmiðil, sem grefur upp hneykslismál. En þeir bera ekki traust til hans. Það er samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum. Þetta er gamla formúlan: Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Skíturinn loðir við fjölmiðilinn. Að vísu naut DV meira trausts en Mogginn árið 1987. En þá var blaðið heldur ekki í neinum sérstökum rannsóknum. Löngu síðar átti hressara DV eftir að bíta úr nál óhóflegra uppljóstrana.
Rannsóknablaðamennska varð Washington Post heldur ekki til framdráttar. Blaðið varð frægt af Watergate-málinu. Með ótrúlegri seiglu og þolinmæði tókst blaðinu á löngum tíma að varpa ljósi á málið. Að lokum varð Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna að segja af sér. Washington Post varð að vonum frægt af framgöngu sinni. Svo og fréttaritstjóri þess, Ben Bradlee og helztu fréttahaukar þess, Carl Bernstein og Bob Woodward. En lestur blaðsins dróst saman. Enn var að verki hin ógnþrungna gamla formúla: Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Skíturinn loðir við fjölmiðilinn. Uppljóstranir borga sig ekki.
Margir voru samstarfsmenn mínir á löngum ferli. Sumir eru þegar nefndir. Síðasta áratug aldarinnar störfuðu með mér tveir kjarnakarlar, er áttu eftir að marka djúp spor í fjölmiðlun. Sigurjón M. Egilsson varð fréttastjóri Fréttablaðsins, síðan ritstjóri DV og loks tímarita í rannsóknum. Reynir Traustason varð ritstjóri tímarita í rannsóknum og síðan ritstjóri DV. Þeir sinntu lykilfréttum og erfiðum rannsóknum á mínum tíma. Reynir gafst aldrei upp í andbyr, minnir Íslendinga mest á félagana Woodward og Bernstein. Var þá rannsóknablaðamaður Íslands nr. 1, vann átján tíma á dag sjö daga í viku.
Reynir Traustason skrifaði fréttaraðir um kvennamál Ólafs Skúlasonar biskups og vörustuld Árna Johnsen alþingismanns. Raðirnar voru gott dæmi um úthald Reynis, sem gafst ekki upp, þótt öll sund virtust lokuð. Hann hafði lag á að vinna þessi mál og önnur slík þannig, að fréttirnar voru ekki umdeildar. Lét umræðuna í samfélaginu snúast um fréttaefnið en ekki um fjölmiðilinn. Árnamálið vannst í andstöðu við Moggann, sem á hverjum snúningi tók upp hanzkann fyrir Árna og hirti upp lygar hans. Erfitt er að stunda rannsóknir í trássi við stofnun, sem þykist vera fjölmiðill. En Reyni tókst það vel.
Aðeins einu sinni reyndi pólitíkus að sýna mér yfirgang. Í ráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar, líklega um 1990. Ég man ekki út af hverju, en hann hringdi í mig og byrjaði að hella sér yfir mig. Ég sagði: “Ég vinn ekki hjá þér, Óli minn, gerðu þig breiðan annars staðar.” Ólafi varð orðfall, svo að ég gat kvatt hann. Aldrei síðan talaði hann við mig. Það var frábært, sérstaklega eftir að hann varð forseti og ég þurfti ekki að sæta boðum í veizlur á Bessastöðum. Íslenzkir pólitíkusar voru flestir öðru vísi, reyndu að hafa sitt fram með lagi. Ólafur Ragnar einn reyndi að valta yfir menn.
Þrátt fyrir augljósa galla var Ólafur Ragnar að mörgu leyti vel hæfur sem talsmaður Alþýðubandalagsins. Blaðamenn komu aldrei að tómum kofunum hjá honum. Þeir gátu hringt heim til hans klukkan átta á morgnana. Alltaf var Ólafur með svör á reiðum höndum. Talaði eins og hann hefði undirbúið sig alla nóttina. Aldrei urðu menn varir við, að hann þreyttist á að vera vakinn af blaðamanni DV. Meðan aðrir leiðtogar jöpluðu og jömluðu flutti Ólafur Ragnar mál sitt af skörungsskap. En hann líktist Davíð Oddssyni í blöndu mikilla hæfileika og mikilla skapbresta. Hann var greifi eins og Davíð.
Upp úr 1990 varð vart við ásókn í blaðamannsstarf af hálfu ungra manna, sem ekki höfðu siðferði blaðamanna. Örfáir komust gegnum nálaraugað og voru hjá okkur skamma hríð. Þeir töldu sér heimilt að nota starfið til að hossa fólki úti í bæ. Vinum sínum og vandamönnum. Einn eða tveir höfðu pólitískan áhuga, en flestir voru í poppinu. Við losuðum okkur við þá. Og þeir fóru fljótlega í störf spunakarla, þar sem þeir áttu heima. Enginn snertiflötur er milli starfs blaðamanna og starfs spunakarla. En meðal sumra ungra manna, fæddra eftir 1965, voru dæmi um siðferðisbrenglun, sem lýstu sér í þessari ásókn.
Á sama tíma komu upp merkisberar græðgisvæðingarinnar. Hún festi rætur hjá fólki, sem fætt var eftir 1965. Þetta voru börn hippanna, alin upp við að eiga rétt, en ekki skyldur. Þau komust síðan til valda um og eftir aldamótin 2000 og framleiddu hrun þjóðarinnar 2008. Sama kynslóð tók aldrei upp lestur dagblaða eins og fyrri kynslóðir. Og fylgdist heldur aldrei með fréttum í sjónvarpi. Árið 2009 var svo komið, að tæpast nokkur áskrifandi dagblaðs var yngri en fertugur og sjónvarp var orðin afþreying ellilaunafólks. Þetta unga fólk tók hins vegar við ferðatölvum og veraldarvefnum við fyrsta tækifæri.
Ég var ósáttur við, að helztu eigendur DV tækju þátt í hlutafjárævintýrum, til dæmis í Arnarflugi og Hafskipum. Var hræddur um, að það mundi hafa óbein áhrif á fréttir, til dæmis í formi sjálfsritskoðunar. Var líka hræddur um, að peningar mundu sogast út úr fyrirtækinu. Hampiðjan var keypt 1994 og farið að byggja þar upp Ísafoldarprentsmiðju, sem síðar varð risafyrirtæki. Árið 1995 fór ég að finna fyrir, að fjármagn í daglegum rekstri DV var farið að þrengjast. Þótt sala áskrifta og auglýsinga væri í fínasta lagi. Sönnun þess, að fjármagn lak stríðum straumum úr fyrirtækinu í stórveldisdrauma.
Árið 1995 urðu ýmsar mannabreytingar í lykilstöðum. Sveinn R. Eyjólfsson keypti Hörð Einarsson út úr fyrirtækinu. Einnig keypti hann mitt hlutafé og ýmissa annarra. Hörður hætti sem framkvæmdastjóri 22. febrúar 1995, Ellert B. Schram hætti sem ritstjóri 18. september 1995. Breytingarnar náðu svo hámarki í upphafi árs 1996. Eyjólfur Sveinsson varð framkvæmdastjóri 11. janúar það ár. Var mjög afgerandi og sjálfsöruggur, hafði verið blaðamaður hjá mér á námsárum og þekkti vel til verka á ritstjórn. Hann var menntaður hagverkfræðingur og vildi gera ýmsar breytingar á rekstri fyrirtækisins.