2. Amalienborg – Nyhavn

Borgarrölt
Nyhavn, København 2

Nyhavn

Hér ætlum við að rölta til vinstri eftir Nýhöfn í átt til sjávar. En fyrst förum við spölkorn til hægri að botni Nýhafnar til að missa ekki af innstu húsunum. Við förum hægt yfir, því að hér er margt smáskrítið og skemmtilegt að sjá í gömlum skreytingum húsanna. Allt það yrði of langt mál að telja upp.

Elzta húsið við götuna er nr. 9, frá 1681. Við missum ekki af sérkennilegri klukku uppi á nr. 11 og gömlu ölkrárskilti frá 1803 á nr. 23, meðan við göngum í rólegheitum í átt til sjávar, fyrst framhjá Tollbúðargötu (Toldbodgade) og síðan Kvesthúsgötu (Kvæsthusgade), unz við nemum staðar fyrir utan hótelið Nyhavn 71 (sjá bls. 8) við enda götunnar.

Nyhavn, København

Nyhavn

Á leiðinni lítum við inn í eina eða tvær ölkrár til að finna reykinn af réttum gamla tímans, þegar þetta var hafnarhverfi Kaupmannahafnar. Erlendar tungur eru enn talaðar í öðru hverju horni, en þær eru fæstar sjómanna, heldur ferðamanna. Hnútur fljúga ekki lengur um borð né hnífar hafnir á loft.
Fleiri minningar eru bundnar við Nýhöfn en hrossahlátrar sjómanna. Ævintýraskáldið H. C. Andersen batt mikla tryggð við götuna. Hann ritaði fyrstu ævintýri sín í húsinu nr. 20, bjó með hléum 1854-64 á þriðju hæð hússins nr. 67 og varði tveimur síðustu árum ævinnar á nr. 18.

Fyrir utan hótelið Nyhavn 71, sem er innréttað í rúmlega 200 ára pakkhúsi, höfum við gott útsýni til hafnarbakka Málmeyjarbátanna, yfir innri höfnina og til Kristjánshafnar (Christianshavn) handan hennar.

Næstu skref