2. Forna Róm – Foro di Traiano

Borgarrölt
Colonna di Trajano, Roma

Colonna di Trajano

Foro di Traiano

Við hefjum ferðina í norðurhorni svæðisins, á höfuðtorgi Rómar í nútímanum, Piazza Venezia, þaðan sem við sjáum súlu Trajanusar greinilega. Við göngum að henni.

Trajanusarsúlan hefur staðið hér í tæplega nítján aldir, furðanlega vel varðveitt. Trajanus keisari lét reisa hana til að minnast sigra sinna í tveimur styrjöldum við Daka í Rúmeníu. Sagan er sögð í 100 lágmyndum, sem mynda marmaraspíral utan á súlunni og væru alls 200 metra langar, ef þær lægju í beina línu. Eins og mörg marmaraverk fornaldar voru þessar myndir í upphafi málaðar skærum litum. Lengst af stóð efst stytta af Trajanusi, en síðustu fjórar aldirnar hefur Pétur postuli verið á vaktinni.

Upphaflega voru háar bókasafnsbyggingar beggja vegna súlunnar og þá var auðveldara en nú að lesa myndasögu súlunnar.

Foro di Trajano, Roma

Foro di Trajano

Að baki súlunnar eru leifar fimm skipa Ulpiubyrðu, Basilica Ulpia, sem ber ættarnafn Trajanusar. Við tökum eftir, að fyrir tveimur árþúsundum var yfirborð lands mun lægra í miðbæ Rómar en það er nú. Handan byrðunnar var sjálft Trajanusartorgið undir beru lofti, stærsta torg keisaratímans í Róm.

Vinstra megin, í hálfhring undir hlíðinni, stendur enn að nokkru Kringla hinna fornu Rómverja, safn 150 sölubúða og þjónustufyrirtækja undir einu þaki. Þetta er merkasti hlutinn af Foro di Traiano, hannaður af Apollodorusi frá Damascus og byggður árin 107-113.

Yfir þessum minnisvarða um skipulagskunnáttu hinna fornu Rómverja gnæfir yngra mannvirki, Torre delle Milizie, frá 1227-1241, eitt bezt varðveitta miðaldamannvirki Rómar.

Foro Trajano, Roma

Foro di Trajano, forna verzlunarhverfið

Til þess að skoða hina fornu verzlanamiðstöð þarf að fara upp tröppurnar vinstra megin við hana, Via Magnanapoli, því að þar er eini inngangurinn, frá Via Quattro Novembre.

Næstu skref