New York State Theater
Hitt óperuhúsið við torgið, New York State Theater, er heimili New York City Ballet og New York City Opera. Ballettinn ræður ríkjum nóvember-febrúar og apríl-júlí, en óperan júlí-nóvember. Við framhlið hússins eru fjögur pör sjö hæða súlna og inni í anddyrinu eru fjórar hæðir til gyllta loftsins, allar með svölum. Höllin tekur 2.279 manns í sæti.
Þegar við vorum síðast í New York var Kristján Jóhannsson að koma þar fram í fyrsta sinn við mikinn orðstír gagnrýnenda. Það var í hlutverki Rodolfo í La Bohéme eftir Puccini. Önnur verk á skránni voru Madama Butterfly eftir sama höfund, Brúðkaup Figaros eftir Mozart, Perluveiðimennirnir og Carmen eftir Bizet, Norma eftir Bellini, Faust eftir Gounot og heimsfrumsýning á Líf og ævi Malmcolm X eftir Davis.