2. Miðbær eystri – Piazza del Popolo

Borgarrölt
Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo, Roma

Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo hægra megin

Piazza del Popolo

Frá safninu förum við yfir götuna, upp tröppurnar í Borghese-garða og síðan beint áfram að Viale Washington, er við göngum alla leið að Porta del Popolo, þar sem við förum í gegn. Þetta er alls um 800 metra leið.

Porta del Popolo er frá 1562-1565 og stendur þar, sem Porta Flamina var áður, í borgarmúr Aureliusar.

Piazza Popolo, Roma

Piazza del Popolo, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto

Vinstra megin við borgarhliðið er Santa Maria del Popolo, frá 1472-1477, ein fyrsta kirkja Rómar í endurreisnarstíl. Í kirkjunni er mikið af listaverkum, til dæmis eftir Pinturicchio, Caravaggio og Rafael.

Piazza del Popolo er hannað af Giuseppe Valadier og lagt 1816-1824. Á torginu miðju er egypzkur einsteinungur frá Heliopolis, sem áður var í Circus Maximus. Torgið markar tilraun til borgarskipulags, sem fólst í að hafa samhæfðar byggingar umhverfis víðáttutorg.

Ofan við torgið er útsýnisstaðurinn Pincio í vesturhlið Borghese-garða.

Á mótum torgs og Via del Corso eru tvær systurkirkjur, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto, hannaðar af Carlo Rainaldi og reistar 1662-1679.

Pincio, Roma

Pincio

Við torgið eru tvö þekkt kaffihús hvort andspænis öðru, Rosati á 5a og Canova á 16. Þar hittast uppar og menningarvitar borgarinnar.

Næstu skref