Við göngum frá torginu eftir Via della Lungaretta til Piazza Sonnino, þar sem San Crisogno er á horninu, að grunni til frá 5. öld, en endurbyggð á 12. öld. Við beygjum þar til vinstri og förum framhjá 13. aldar Anguillara-turni, dæmigerðum borgarturni frá miðöldum, áður en við höldum yfir ána Tibur á Garibaldi-brú.
Via Giulia
Þegar við erum komin yfir ána, beygjum við til vinstri eftir Lungotevere de Vallati, unz við komum að Piazza Pallotti, þar sem við víkjum inn í göngugötuna Via Giulia, sem er ein af fáum beinum brautum bæjarins. Þetta var ein helzta gata Rómar á endurreisnartímanum, gata fornra kardínálahalla, og hefur hafizt á ný til virðingar í nútímanum, vinsæl gata fornminja- og listaverkasala.
Þegar við komum að garði Farnese-hallar hægra megin, auðþekkjanlegum af klifurjurtum og af 17. aldar göngubrú yfir götuna, er sérkennilegur brunnur, Fontana del Mascherone, á vinstri hönd, andspænis Via del Mascherone, settur upp 1626, en hefur vafalaust verið tekinn ófrjálsri hendi úr einhverri fornbyggingunni.