2. Padova – Palazzo della Ragione

Borgarrölt
Palazzo della Ragione, Padova

Palazzo della Ragione

Caffè Pedrocchi

Við förum vestur yfir Piazza Eremitani, förum norður fyrir hornið á húsaröðinni og göngum síðan 600 metra til suðurs eftir Via Cavour, þar sem við komum að Caffè Pedrocchi hægra megin götunnar.

Risastórt kaffihús frá 1831 í nýgnæfum stíl, einn helzti hornsteinn menningar- og stjórnmálalífs Ítalíu á sameiningarárum landsins, þegar það brauzt undan veldi austurríska keisaradæmisins. Þar héldu til ýmsar helztu frelsishetjur landsins. Þetta er núna í senn veitingahús og kaffihús, spila- og setustofa, þungamiðja alls þess, sem gerist í Padova.

Palazzo della Ragione

Frá suðurdyrum kaffihússins förum við til hægri 50 metra eftir Via Cesare inn á Piazza dei Frutti við hlið borgarhallarinnar. Við göngum fyrir austurenda hennar inn á Piazza delle Erbe og virðum hana fyrir okkur.

Palazzo della Ragione var reist 1218 sem dómhöll og ráðhús borgarinnar.

Hún hefur að geyma stærsta miðaldasal Evrópu, 80 metra langan, 27 metra breiðan og 27 metra háan. Veggir salarins eru skreyttir 333 freskum eftir Nicola Miretto, frá 1420-1425. Þær komu stað fyrri steinmálverka eftir Giotto, sem eyðilögðust í bruna 1420.

Palazzo del Monte di Pietà

Við göngum vestur úr torginu tæplega 100 metra leið eftir Via Manin og beygjum til vinstri inn á Piazza del Duomo, þar sem dómkirkjan blasir við. Hægra megin torgsins er miðaldahöll.

Höllin Palazzo del Monte di Pietà er frá miðöldum, en bogagöngin framan við hana eru frá 16. öld.

Næstu skref