Mulberry Street
Við Canal Street beygjum við eina húsablokk til vinstri og höldum svo áfram til norðurs eftir Mulberry Street, ás ítalska hverfisins. Eins og í Chinatown er mest um að vera í Little Italy á sunnudögum, þegar Ítalir koma úr úthverfunum til að verzla og borða.
Mulberry Street er löng og mjó gata, sem gæti hafa verið flutt í heilu lagi frá Palermo eða Napoli. Þar eru smábúðir, sem selja spaghetti, makkaroni og ótal aðrar tegundir af pasta. Þar situr fólk úti á gangstétt og sötrar rauðvín meðan það bíður rólegt eftir því að klukkan verði nógu margt til að hægt sé að fara að borða. Við sláumst í þann hópinn.
Þegar við komum norður að Houston Street, beygjum við til hægri eftir þeirri götu. Ef við vorum ekki búin að snæða í Chinatown og ef ekki er sunnudagur, fáum við okkur hádegisverð í Ballato, bezta ítalska matstaðnum.
Houston Street er borið fram “háston” á newyorsku. Það er mikil skransölugata gangstéttarkaupmanna, full af lífi og fjöri. Eftir að hafa litið á varninginn, yfirgefum við hávaðann og göngum austur götuna, allt að Orchard Street.