Snemma árs 2001 tók ég þátt í undirbúningi að stofnun Fréttablaðsins. Sveinn R. Eyjólfsson átti hugmyndina. Hann átti líka hugmyndina að burði blaðsins heim í hús. Erlend fríblöð voru þá ekki borin heim, heldur látin liggja frammi á fjölförnum stöðum. Sveinn sá, að auglýsingadæmið yrði snöggtum betra með heimburði. Þáttur minn í málinu var að mæla með Gunnari Smára Egilssyni sem ristjóra. Og fara síðan til hans að sannfæra hann um að taka nýja blaðið að sér. Ég var viss um, að hann væri eini maðurinn, sem gæti tekið svona erfitt og flókið verkefni að sér. Ég reyndist þar sannspár.
Gunnar Smári hafði áður verið blaðamaður hjá mér, mesti reikningshaus, sem ég hef kynnzt. Allar tölur léku í höndum hans. Ég man ekki eftir betri blaðamanni á sviðum viðskipta og efnahags. Auk þess hafði hann næmt auga fyrir hönnun dagblaða. Hann útfærði viðskiptahugmynd Sveins vel, hannaði sjálfur form Fréttablaðsins í smáatriðum. Það hefur æ síðan fylgt útliti Gunnars Smára. Blaðið gekk ekki nógu vel fyrsta árið, en það stafaði eingöngu af, að áætlað startfé kom aldrei frá eigendum. Blaðið lifði frá degi til dags af innkomnum peningum og átti erfitt með að standa í skilum.
2002-2006: Ritstjóri Fréttablaðsins, aftur ritstjóri DV (26)
Fyrst hafði Gunnar Smári meðritstjóra, Einar Karl Haraldsson. Hann átti að skapa blaðinu virðulegan og kristilegan svip, því að Gunnar Smári var talinn hálfgerður furðufugl. Einar átti lítið erindi og hrökklaðist brott eftir nokkra mánuði. Eftir það var Gunnar Smári einn ritstjóri um skeið. Ég kom þarna inn sem meðritstjóri hans í hálft ár fyrri hluta ársins 2002. Ég hélt fundi með blaðamönnum, ráðlagði þeim góða blaðamennsku, skrifaði leiðara, en hafði annars lítil áhrif. Um mitt ár gafst blaðið upp, skipti um kennitölu, fékk Jón Ásgeir Jóhannesson í púkkið. Þá var ekki lengur pláss fyrir mig.
Eitt síðustu verka minna á Fréttablaðinu var að semja heildstæðar siðareglur fyrir blaðamenn. Áður voru til afmarkaðar reglur á DV, sem einkum fjölluðu um nafn- og myndbirtingar. Nýju reglurnar á Fréttablaðinu fjölluðu hins vegar um meðferð alls konar vandamála. Voru sniðnar að siðareglum erlendra fjölmiðla, einkum frá Guardian. Voru birtar í blaðinu og á vef blaðsins og eru enn í handbók blaðamanna þess. En ég tel, að þær eigi að vera öllum aðgengilegar á vefnum. Svo að lesendur blaðsins geti sjálfir metið, hvort blaðið fari eftir reglum sínum. Það er bara partur af nauðsynlegu gegnsæi.
Síðari hluta ársins 2002 sat ég í helgum steini og gerði mest lítið, taldi mig vera pensjónista. Í ársbyrjun 2003 var ég í skíðabrekku í Madonna, þegar eigendur Eiðfaxa hringdu til mín út af erfiðleikum þess. Ég gerði tillögur til úrbóta og var í framhaldi af þeim ráðinn útgáfustjóri. Eiðfaxi kom út í þrennu lagi, á ensku og þýzku fyrir utan íslenzku. Ég hafði þar sömu aðferð og á Vísi áður, skar niður kostnað þangað til hann var kominn í samræmi við tekjur. Ég var þarna í tvö ár, 2003-2005 og skilaði hallalausum rekstri bæði árin. Það var mikil breyting til batnaðar frá fyrra ástandi Eiðfaxa.
Ég skipti áhugasviðum hestamennsku í nokkra flokka, atvinnumenn, keppni, fjölskyldusport, hestaferðir, ræktun. Hver tegund áhugamála fékk sitt pláss í hverju tölublaði. Það átti að tryggja fjölbreytnina. Ég réð Jón Finn Hansson á ritstjórn, þann mann sem veit mest allra Íslendinga um hesta og þekkir flesta þeirra með nafni. Hann var Eiðfaxa sannur bústólpi. Þegar ég svo hætti eftir tveggja ára starf, var Jón Finnur vel undir það búinn að taka við af mér sem ritstjóri. Það varð úr, en því miður var hann ekki nógu lengi í starfi. Eftir það varð blaðið aftur fremur einhæft íþróttablað.
Árin 2002-2003 vann ég meðfram að smíði sögu Náttúrulækningafélags Íslands og heilsustofnunar þess í Hveragerði. Hafði lengi verið stjórnarmaður í félaginu. Mest af ræktarsemi við afa minn, sem stofnaði félagið og hælið. Náði yfir í stafrænt form öllum fundargerðum félagsins og stofnunarinnar, ýmsu öðru efni svo sem blaðaúrklippum. Í því var auðvelt að leita að nöfnum og heitum. Heilsustofnunin hugðist nota þetta sem stjórnunartæki auk útgáfu bókar. Þegar frumvinnu var lokið, slettist upp á vinskap við einræðisherra félagsins og hælisins, Gunnlaug K. Jónsson, frænda minn. Málið fór í baklás.
Gunnlaugur var duglegur og gerði margt gott fyrir félag og hæli. Um leið var hann kontról-frík, vildi sjálfur öllu ráða. Hafa jámenn kringum sig, helzt vini og framsóknarmenn. Ég lenti upp á kant við hann í félagsstjórn. Einnig losaði hann sig við gagnrýna konu mína úr hælisstjórn. Ágreiningur af minni hálfu snerist sumpart um slóðaskap mágs hans í tölvumálum, Inga Þórs Jónssonar. Gunnlaugur gerði hann síðar að almannatengli hælisins. En einkum var ósætti um, að hann hlóð framsóknarmönnum í hælisstjórn. Svo sem Hjálmari Árnasyni til að hjálpa honum í framboð á Suðurlandi gegn Guðna Ágústssyni.
Á þessum tíma var ég í hægum sessi sem útgáfustjóri Eiðfaxa-útgáfunnar. Sá fram á traustan fjárhag hestatímarita fyrirtækisins næstu árin. Aðferðin var hin sama og hafði gefizt mér svo vel hjá Vísi í gamla daga. Spara fyrst, ná síðan jafnvægi og byrja þá síðast að eyða. Öfugt við útrásarmenn, sem settu landið á hausinn. Jafnframt skrifaði ég leiðara fyrir DV tvisvar í viku. Allt var þetta í lygnum straumi eins og hæfði manni, sem var um það bil að komast á ellimannaaldur. Ég var hins vegar dálítið óþolinmóður í stöðunni. Undir niðri vildi ég stærri verkefni. Þau birtust síðan algerlega óvænt.