Vorið 2008 settist ég svo í helgan stein. Gaf mér þó tíma til að leggja meiri vinnu í bloggið á veraldarvefnum. Það var nógu vinsælt til að kippa mér upp í annað sæti vinsældalista bloggsins, næst á eftir meistaranum Agli Helgasyni. Ég bloggaði þrisvar á dag. Fór upp í fimm skipti á dag og stundum meira, er fjármálakerfi Íslendinga hrundi haustið 2008. Vorið 2009 settist ég svo niður við að skrifa hálfrar aldar starfssögu mína í blaðamennsku. Hún varð til meira eða minna fyrir kringumstæður og tilviljanir. En ég er sáttur við hana alla. Ég var lengi barnalegur, en þroskaðist samt hægt og sígandi.
Við hjónin spilum bridge við Þórð Harðarson yfirlækni og Sólrúnu Jensdóttur, skrifstofustjóra í menntaráðuneytinu. Þórður hvatti mig vorið 2009 til að skrifa þessa starfssögu. Taldi auðséð, að ég þyrfti að hengja saman ýmsa þætti ævinnar og setja þá fram í heillegri mynd. Ég tók því dauflega, taldi allt ævistarfið þegar liggja fyrir á prenti og á vefnum. Hann sagði hins vegar samhengið vanta. Nokkrum vikum síðar tók ég trú á kenningu Þórðar og hóf að skrifa þessa bók. Einu sinni sem oftar hafði annar maður frumkvæði að því að koma mér til verks. Þórður ber auðvitað enga ábyrgð á textanum.
Hræsnarar krossa sig, þegar skrifuð er íslenzka í bloggi. Kalla það ýkjur. Ég er ósammála. Ástandið á mörgum sviðum samfélagsins er svo furðulegt, að það skilst ekki á dulmáli. Skoðið Davíð Oddsson. Ekki er hægt að taka á honum með silkihönzkum. Ég hef sjálfur hafnað dulmálinu, sem lengi tíðkaðist í samfélagsrýni. Ef einhver fer með rangt mál, segi ég, að hann ljúgi. Nota góð og gild orð, sem fólk skilur. Allt of lengi hefur samfélagið grotnað í skjóli frændhygli og flokkshygli, hræsni og yfirdrepsskap. Hrunið á haustinu 2008 opnaði augu margra. Þá var loksins hægt að fjalla um ruglið á íslenzku.
Vegferð mín var bara að hluta markviss. Aðeins þrisvar sótti ég um vinnu. Það var fyrst á Tímanum og næst á Vísi. Aðrir menn stýrðu vegferð minni eftir það. Sigfús hringdi dyrabjöllunni, þegar ég var gerður að ritstjóra. Sveinn hringdi norður, þegar hann vildi stofna Dagblaðið. Stjórn Eiðfaxa hringdi í mig, þegar ég var þar gerður að útgáfustjóra. Gunnar Smári sendi mér símboð, þegar ég varð ritstjóri DV í annað sinn. Þannig hef ég lengst af verið leiksoppur ytri kringumstæðna. Sagði alltaf já. Oftast var ég vanbúinn að fást við ný verkefni. Reyndi að bæta mér það upp með iðjusemi.
Fremst í þessari starfssögu gat ég snemmborins áhuga míns á að pakka saman upplýsingum í skipulega aðgengilegt form fyrir notendur. Tel enda ævistarfið hafa meira eða minna snúizt um það. Ekki bara ritstjórn dagblaða. Líka ritun ferðabóka um nokkrar heimsborgir. Svo og veitingarýni margra áratuga. Einnig bókaflokkurinn um ræktunarhross. Ekki sízt útgáfa reiðleiða hestamanna. Menn þekkja mig líklega mest fyrir skoðanir í leiðurum og bloggi. Ég þekki mig hins vegar mest sem pökkunarmann, það er að segja ritstjóra efnis. Hvers sem er: Dagblöð, ferðabækur, veitingarýni, fundargerðir, hrossarækt, reiðslóðir.
Í þessum texta fjalla ég lítið um skoðanir mínar. Þær eru öllum aðgengilegar á www.jonas.is. Þessi texti er hugsaður sem skýring á mismunandi aðstæðum á ýmsum tímum á ferli mínum. Eins konar inngangur eða eftirmáli. Sem slíkur er textinn að mínu viti fullnægjandi. Hann er ekki sjálfsævisaga. Ég gæti ekki hugsað mér að skrifa slíka sögu. Ég lét hins vegar segja mér, að ég þyrfti að rekja feril minn til að útskýra sumt, sem ég hef áður sagt. Að því leyti eru fyrri skrif mín misheppnuð. Það er galli, ef búa þarf til texta til að útskýra annan texta. Og með þessum texta játa ég þann galla á fyrri skrifum.
Menn geta gengið að öllu, sem ég hef gert í aldarþriðjung. Undantekningar eru tvær. Í fyrsta lagi: Saga Náttúrulækningafélags Íslands er enn hálfköruð vegna ósættis míns við formann félagsins og heilsustofnunar þess. Hef ég þó áhuga á að ljúka henni, þótt ekki sé nema af tillitssemi við afa minn, Jónas Kristjánsson. Í öðru lagi: Endurbirtingar bíður gagnabankinn um tugþúsundir ræktunarhrossa, þúsundir hrossaræktenda, ræktunarjarða og hrossaýninga, svo og hundruð hrossalita. Falleg ættargröf. Þarf að uppfæra notendaviðmótið á vefnum, svo að aðrir öðlist aðgang að nýju. Dálítið snúið mál og dýrt.
Að öðru leyti er ég kvitt við dagsverkið. Allir leiðarar mínir 1973-2005 eru á www.jonas.is. Einnig öll veitingarýni mín. Skrif um erlendar stórborgir. Skrif um fjölmiðlun og blaðamennsku. Svo og fyrirlestrar mínir um fjölmiðlun og blaðamennsku. GPS-punktar reiðleiða. Ég hef skilað dagsverkinu, haldið öllu til haga, sem máli skiptir. Þessi starfssaga mín fer sömuleiðis á www.jonas.is eftir nokkur ár. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið hvatningu til að setja á þann hátt ramma utan um ævistarfið. Nú er kominn tími til að sinna betur reiðhestunum og kanna reiðleiðir um afréttir nær og fjær.
Takk.