Gönguferð um Dublin
Hér verður lýst einni langri gönguferð um miðborgina. Á leiðinni tínum við upp flesta skoðunarverða staði, sem verða á vegi okkar og tökum nokkra króka til að komast yfir flest það, sem máli skiptir í Dublin yfirleitt
St Michan’s
Við hefjum gönguna við helztu minjar víkinga í Dublin, kirkjuna St Michan’s. Hún er norðan árinnar Liffey, rétt vestan við Four Courts dómhöllina, við götuna Church Street, sem liggur upp frá ánni.
St Michan’s er elzta kirkja borgarinnar. Hún var upprunalega reist í rómönskum stíl af dönskum víkingum 1095, endurbyggð 1686 og fékk þá núverandi svipmót. Turninn er sumpart upprunalegur víkingakirkjuturn.
Ferðamenn skoða helzt heillega líkama frá lokum sautjándu aldar, sem eru til sýnis í kjallaranum. Kalksteinninn í kirkjuveggjum dregur raka úr andrúmsloftinu og hefur komið í veg fyrir rotnun hinna látnu.