Lolland
Næsta morgun um níuleytið förum við Brovejen yfir brúna milli eyjanna Falster og Lolland. Annað hvort förum við beint eftir A7 til Sakskøbing og Maribo eða förum krókinn um Nysted til að sjá Fuglsang sveitasetrið og Ålholm kastala. Leiðin frá Nyköbing til Nysted er 16 km og síðan eru 24 km þaðan til Maribo.
Fljótlega komum við að Fuglsang, sem er í blöndu gotnesks stíls og endurreisnarstíls. Þar fáum við okkur morgungöngu í fögrum hallargarði, þar sem aðgangur er ókeypis. Síðan höldum við áfram til Nysted og tökum krók til Ålholm kastala í þann mund, er við komum að bænum.
Hinn stóri kastali frá 12. öld lítur út eins og ræningjavirki úr ævintýrunum. Hann er byggður í ýmsum stílum frá ýmsum tímum. Norðausturturninn er frá 14. öld og vesturveggirnir frá 13. öld. Kastalinn var einu sinni konu
ngsbústaður. Hann er opinn júní-ágúst 11-18. Ef við lögðum nógu tímanlega af stað í morgun, getum við notað tímann 10-11 í Ålholm Automobil Museum í nágrenninu, þar sem sýndir eru 200 gamlir bílar.
Frá Ålholm förum við eftir Saksköbing-veginum til Maribo, bæjar, sem reistur var umhvefis nunnu- og munkaklaustur frá upphafi 15. aldar. Nærri miðtorginu Torvet verður fyrir okkur dómkirkjan í Maribo, áður klausturkirkja, byggð 1413-70. Hún nýtur sín vel við hin ljúfu Maribo vötn.
Eftir 3 km á A7 í átt til Nakskov beygjum við til hægri Bandholm-veg til að taka 5 km krók til Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, stærsti sveitaseturs-garður í Skandinavíu. Hann hefur verið svokallaður safari-garður síðan 1970. Tígrisdýr frá Bengal voru helzta aðdráttaraflið, þegar við ókum um garðinn. Kjörið er að fá hádegissnarl í Skovridergård Cafeteria í miðjum garðinum.
Auk tígrisdýranna státar garðurinn af villtum antílópum, gíröffum, zebradýrum, úlföldum, flóðhestum, strútum, öpum og mörgum fleiri dýrum, en fílana vantaði. Þar er líka stór barnagarður, þar sem boðnir eru reiðtúrar. Sýndar eru eftirlíkingar af sjö enskum höllum og kastölum. Einnig eru þar 500 mismunandi tegundir trjáa.
Hér er gott að verja heilu síðdegi, ef börnin eru með. En við verðum að gæta þess að missa ekki af ferjunum tveimur, sem við þurfum að ná, ef við ætlum að komast til Ærøsköbing í kvöld. Í tæka tíð verðum við að fara til baka á A7 til að halda áfram leiðinni frá Maribo til Nakskov, 27 km, og síðan 4 km til viðbótar að ferjuhöfninni í Tårs.
Langaland
Ferjan frá Tårs til Spodsbjerg á Langeland-eyju fer á klukkustundar fresti og á hálftíma fresti á annatímum. Ferðin tekur 45 mínútur. Frá höfninni í Spodsbjerg er aðeins stutt, 8 km leið til hafnarinnar í Rudkøbing, hinum megin á eyjunni.
En áður en við yfirgefum Rudkøbing verðum við að gefa okkur tíma til að skoða og fara fram og til baka yfir hina voldugu Langalandsbrú, 1,7 km langa, hina þriðju lengstu í Danmörku. Og við verðum að skoða okkur um í Rudkøbing.
Við göngum frá höfninni upp Brogade að Gåsetorvet, rammað gömlum húsum. Síðan förum við spölkorn lengra, að kirkjunni, sem er að hluta frá um það bil 1100 og hefur endurreisnarturn frá 1621. Þaðan röltum við í fornlegu andrúmslofti um Smedegade, Vinkældergade, Ramsherredsgade, Gammel Sømandsgade, Strandgade, Sidsel Bagersgade, Østergade og síðan til baka Brogade að höfninni.