Slotsholmen
Við látum duga snögga heimsókn og höldum áfram Hafnargötu út að síkinu. Nú verða senn kaflaskil á göngu okkar. Við yfirgefum Brimarhólm og erum senn komin út á Hallarhólma, Slotsholmen, þá eyju, sem öldum saman hefur verið pólitísk þungamiðja Danmerkur. Við nemum staðar á Kauphallarbrú (Børsbroen).
Børsen
Framundan sjáum við Kauphöllina (Børsen), handan brúarinnar, reista í hollenzkum fægistíl 1619-40 að tilhlutan Kristjáns IV konungs. Kauphöllin er ríkulega skreytt, bæði innan dyra og utan. Mesta athygli okkar vekur turnspíran mikla, ofin saman úr fjórum drekasporðum.
Christiansborg
Við beygjum af brúnni til vinstri, förum í kringum Kauphöllina og göngum eftir Hallarhólmagötu (Slotsholmsgade) út á hallartorg Christiansborg, Kristjánsborgar. Framhlið hennar blasir við okkur. Að baki styttunnar af Friðriki VII konungi eru svalirnar, þar sem Margrét II Þórhildur drottning var hyllt við valdatöku.
Núverandi Kristjánsborg var reist 1907-28 eftir hallarbrunann 1884. Hún er klædd marglitu graníti frá Borgundarhólmi og ber ógrynni af kopar á þaki, eins og svo margar hallir borgarinnar. Hún hefur að geyma hæstarétt Danmerkur, þjóðþing Dana, svo og hluta utanríkisráðuneytis og veizlusali konungs og ríkisstjórnar.
Undir höllinni hafa fundizt leifar af fyrsta kastala Kaupmannahafnar, borg Absalons erkibiskups frá 12. öld. Á þeim grunni voru síðan reistar konungshallir Dana, allt til hallarbrunans 1794, er heimkynni konungs voru flutt úr rústum Kristjánsborgar til fjögurra halla Amalíuborgar.
Meðan konungar sátu í Hróarskeldu (Roskilde) höfðu völdin hér arftakar Absalons biskups. Á 15. öld komst borgin í hendur Danakonunga. Þeir tóku þá sæti biskupa á Hallarhólma. Og loks á tíma lýðræðis tóku þingmenn og ráðherrar sæti konungs. Hallarhólmi hefur þannig staðið af sér allar veltur stjórnmálasögunnar.
Ekki voru Kaupmannahafnarbúar alltaf jafn uppnæmir fyrir konungi og hirð. Höllin stendur að hluta, þar sem áður voru öskuhaugar borgarinnar, Skarnholmen. 1650 neyddist konungur til að gefa út tilskipun um bann við, að borgarbúar notuðu nafnið Skarnhólma yfir Hallarhólma.