Við förum aftur út á veginn A4 og síðan A44, þaðan sem við tökum fljótlega afleggjara til Lisse. Þar er Keukenhof, 28 hektara blómasýning og blómasala í fallegum skógi. Hún er opin frá marzlokum til maíloka kl. 8-20. Athugaðu, að hún er aðeins opin tvo mánuði á ári, og mundu, að haga einni Hollandsferð í samræmi við það.
Öllum, sem hingað koma, er blómahafið ógleymanlegt úti á garðflötunum í skóginum sem inni í gróðurskálunum. Breiðurnar af blómum í öllum regnbogans litum virðast endalausar. Alls eru blómin sex milljón talsins. Engin blómasýning í heiminum er stærri en þessi. Flestir öflugustu blómaræktendurnir í Hollandi eiga hér skika.
Áfram til Delft