SoHo
Norðan við Canal Street taka við þrjú kunn hverfi. Þeirra vestast er SoHo, fullu nafni South of Houston Street. Það markast af Canal Street, 6th Avenue, Houston Street og Broadway.
Það er enn eindregnara dæmi en TriBeCa um hverfi vandaðra og skrautlegra steypujárnshúsa fyrir léttan iðnað, sem átti að rífa fyrir aldarfjórðungi, en var í þess stað blessunarlega breytt í hverfi listvinnustofa, sýningarsala, léttvínsbara og veitingahúsa. Þar búa þekktir listamenn, sem hafa efni á að borga háa húsaleigu.
Mest er um að vera í sýningarsölunum á laugardögum. Að öðru leyti er fjörugast í hverfinu á sunnudögum, en þá eru salirnir yfirleitt lokaðir.
Sýningarsalirnir eru einkennistákn SoHo. Þar gerist tízkan í myndlist. Öll París er hreinasta sveitaþorp í samanburði við SoHo á því sviði. Í myndlist er SoHo nafli alheimsins.