Fondacione Cini
Klaustrið er vestan kirkjunnar.
Benediktaklaustrið er frá sama tíma og kirkjan, einnig hannað af Andrea Palladio. Allt í kringum stóra innigarða eru mikil og létt súlnagöng á fyrstu hæð og palladísk gluggaröð á annarri hæð, þar sem annar hver gluggi hefur oddhatt og hinn sveigðan hatt. Þetta form hefur verið stælt um allan heim.
Klaustrinu hefur verið breytt í menningarstofnun, Fondacione Cini, sem heldur þar ráðstefnur og sýningar. Þar hafa ráðamenn Vesturlanda hitzt til skrafs og ráðagerða og eitt sinn var þar kjörinn páfi.
Andrea Palladio
Höfundur klausturs og kirkju er einn merkasti arkitekt allra tíma.
Andrea Palladio var uppi 1508-1580, fæddur í nágrannabæ Feneyja, Vicenza, þar sem sjá má mörg verka hans. Hann nam rómverska byggingarlist keisaratímans í Róm. Síðan hannaði hann mörg sveitasetur feneyskra aðalsmanna í nágrenni borgarinnar og nokkrar hallir í Feneyjum sjálfum, kirkjuna Redentore á Giudecca-eyju, svo og klaustrið og kirkjuna á San Giorgio eyju.
Fleira er sagt af verkum hans í bókarkaflanum um Vicenza.