Ef greina á Spánverja frá öðrum Evrópumönnum, má segja, að þeir séu sjálfmiðjaðir stjórnleysingjar. Frá blautu barnsbeini eru þei
r vanir að tjá sig sem einstaklinga, fremur en að gefa og þiggja upplýsingar og skoðanir. Þeir hemjast illa í félagsskap, og á kaffihúsum tala allir í einu. Þeir eru hrokafullir og vingjarnlegir í senn, þrasgjarnir og gjafmildir, sérstaklega barngóðir. Og þeir eiga gnótt listamanna.
Madrid hefur á hálfum öðrum áratug breytzt úr friðsælu stórþorpi í fjörugustu höfuðborg Vesturlanda. Fólkið í Madrid hefur tekið nýfengið lýðræði og frelsi með slíku trompi, að því er líkast sem það sé að vinna upp hálfrar aldar kúgun á valdatíma Francos. Miðbærinn er á fullum dampi frá morgni til morguns. Barir og kaffihús eru alltaf meira eða minna þétt skipuð gestum. Það er rétt svo, að göturnar róist milli 5 og 7 á morgnana. Á móti hvílir fólk sig milli 14 og 16 á daginn.
Movida kalla heimamenn þetta hraðgenga fyrirbæri. Allt er keyrt á fullu, bæði vinna og skemmtun, og lítill tími er aflögu til svefns. Rannsóknir sýna, að í Madrid sofa menn minna en í öðrum höfuðborgum Vesturlanda. Frjálslyndið er svo mikið, að víða má sjá fólk koma í veitingahús og skemmtistaði eftir miðnætti með smábörn í vöggu.