Hyde Park
Frá Marble Arch förum við undir götuna yfir í Speakers´ Corner í horni Hyde Park. Hér var árið 1872 komið á málfrelsi, þar sem menn gátu flutt ræður um hvaðeina, án þess að vera stungið inn. Um langt skeið töluðu hér einkum trúarofstækismenn og aðrir sérvitringar, en síðustu árin hefur aftur fjölgað alvöruræðum, einkum flóttamanna frá löndum, þar sem málfrelsi er heft. Mest er um að vera á sunnudögum.
Hyde Park er stærsta opna svæðið í London, ef vesturhlutinn, Kensington Gardens, er talinn með. Þetta eru 158 hektarar graslendis, voldugra trjáa, ljúfra blómabeða og vatnsins Serpentine, sem búið var til árið 1730.
Hér er gott að slaka á í sveitasælu, hanga á útikaffihúsi eða fara í bátsferð. Í andstæðu við svonefnda franska garða, sem eru formfastir og þrautskipulagðir, er Hyde Park enskur garður, óformlegur og losaralegur, með frjálsum gróðri.
Upprunalega girti Hinrik 8. garðinn og gerði að veiðilendu sinni. En fyrir hálfri fjórðu öld var hann gerður að almenningsgarði.
Í suðausturhorni garðsins, milli beljandi umferðaræða, eru litlir gróðurreitir milli Hyde Park og Green Park. Þar standa m.a. Wellington sigurboginn og Aspey House, sem einu sinni hafði hið fína heimilisfang: London nr. 1. Þar bjó Wellington hershöfðingi, er sigraði Napóleon við Waterloo.
Milli eyjanna og frá þeim liggja göng undir umferðaræðarnar á alla vegu. Við ljúkum hér þessari gönguferð, í næsta nágrenni Hyde Park Corner neðanjarðarstöðvarinnar.