3. Soho – Soho

Borgarrölt
Leicester Square, London 2

Leicester Square

Soho

Eros, Piccadilly Circus, London

Eros, Piccadilly Circus

Frá Trafalgar Square er stutt að ganga vestan við National Gallery framhjá Royal Trafalgar hóteli upp að Leicester Square, þungamiðju bíóhverfisins í Soho. Þar er rólegur garður með þægilegum bekkjum til að hvíla lúin bein.
Rétt fyrir vestan torgið er Piccadilly Circus, forljótt torg með æpandi ljósaskiltum. Á því miðju er eitt af einkennistáknum borgarinnar, styttan af Eros, alþjóðlegur mótsstaður ungmenna á faraldsfæti.

Frá Piccadilly Circus göngum við til baka rúmlega hálfa leið til Leicester Square og beygjum til norðurs Wardour Street, sem liggur þvert um kínverska hverfið. Þar er Chuen Cheng Ku, kjörinn hádegisverðarstaður (bls. 33).

Við förum yfir Shaftesbury Avenue, eina af miklu leikhúsgötunum, göngum nokkur skref til vesturs og síðan norður Rupert Street og í framhaldi af því Berwick Street. Í þeim tveimur götum er ágætur og skemmtilegur útimarkaður grænmetis, ávaxta og blóma. Hann hefur verið hér síðan 1778.

Frá norðurenda markaðsins þræðum við hliðargötur um friðsælan Soho Square til Charing Cross Road, þar sem Foyle og hinar bókabúðirnar eru. Skemmtilegust er hliðargatan Cecil Court til austurs, þar sem eru mætar fornbókaverzlanir.

Ef við göngum suður allan Charing Cross Road, endum við á upphafspunktinum, Trafalgar Square. Nálægt leiðarlokum er gott að hvíla sig á kránni Salisbury. En hafa má til marks um hnignun Soho að meira að segja á þessari fögru krá er búið að setja upp leiktæki.

Kynlífsiðnaðurinn og skríllinn hertóku smám saman Soho, nema veitingahúsin, og hröktu ánægjuna yfir í Covent Garden. Meira að segja krárnar 60-70, sem margar eru frá fyrri hluta 18. aldar, urðu flestar hverjar ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Þetta er nú byrjað að lagast aftur.

Næstu skref