Via Appia Antica
Castelli Romani er sameiginlegt nafn nokkurra smábæja í hæðunum 25 km suðaustur af Róm. Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir í rútu og er þá oft einnig komið við í katakombunum við Via Appia Antica.
Via Appia Antica var lagður 312 f.Kr. og náði til Capua, Benevento og Brindisi. Snemma var farið að reisa grafhýsi umhverfis hann, því að bannað var að jarða fólk innan borgar. Enn er hægt að aka eftir þessum gamla vegi framhjá helztu katakombum kristinna manna í Róm, grafhýsi Romulusar, veðhlaupabraut Maxentiusar og grafhýsi Ceciliu Metella, svo og ótal smærri bautasteinum og minnisvörðum.
Þrjár katakombur eru til sýnis á þessum slóðum, Callisto, lokuð miðvikudaga; Domitilla, lokuð þriðjudaga; og Sebastiano, lokuð fimmtudaga.
Katakomba er ekki felustaður kristinna, heldur kristinn neðanjarðar-grafreitur, sem skiptist venjulega í nokkrar hæðir, því alltaf þurfti að grafa dýpra og dýpra, þegar minna varð um rými. Þær voru að mestu grafnar á 3. og 4. öld.
Castelli Romani
Leiðin um Castelli Romani liggur venjulega fyrst til Castel Gandolfo, sem er á brún eldgígsins mikla, sem hefur myndað Lago di Albano. Í þessum bæ er sumarhöll og stjörnuskoðunarstöð páfans. Frá svölum framan við sumarhöllina er gott útsýni yfir vatnið.
Rocca di Papa er bær, sem hangir í hlíðum Monte Cavo, allur í bröttum tröppum og undnum göngusundum, hæsti bær í Castelli Romani.
Grottaferrata býr að baki virkissíkis yfir fallegu klaustri, þar sem kaþólskir munkar hafa frá 1004 notað ortódoksa helgisiði. Þar er kirkja með 12. aldar turni.
Í Frascati er miðstöð vínræktar og þar gnæfir svipmikil Villa Aldobrandini í hlíðinni yfir miðbæjartorginu.
Nú víkur sögunni að Napoli og Campania.