Craggaunoven
Aftur förum við á R469 og staðnæmumst loksins við Craggaunoven-safnið.
Craggaunoven Centre er eins konar safn til írskrar fornsögu. Safnið er í fornum hústurni frá 16. öld. Þar hefur verið til sýnis nautshúðabáturinn Brendan, sem siglt var til Ameríku 1976-1977 til að staðfesta, að heilagur Brendan hafi getað fundið Ameríku á slíkum báti á 6. öld.
Fyrir neðan turninn hefur verið gerð eftirlíking af bronsaldarþorpi á hólma úti í vatni með brú í land. Byggingarstíll þorpsins minnir á hliðstæð Afríkuþorp.
Dromoland
Við förum R469 til baka til Ennis og þaðan N18 til
Newmarket-on-Fergus, þar sem við komum að víðáttumiklum görðum og golfvelli voldugs kastala.
Dromoland Castle er frá 1570 og var í eigu helztu ættar írskra konunga, Brjánunga, unz kastalanum var breytt í eitt mesta lúxushótel Írlands. Helzta einkenni hans er mikill sívaliturn á einu horninu. Að innanverðu er kastalinn einkar notalegur, með snarkandi eldi í arinstæðum, miklu af forngripum og listaverkum. Við fáum okkur drykk á bókasafnsbarnum og kaffi við einn arineldanna. Herbergin eru misjöfn að stærð, en öll einkar vel og fagurlega búin, enda kostar nóttin hér £252 (!) fyrir tvo með morgunverði.
Næstu skref