35. Írland – Crag

Borgarrölt
Crag, Írland

Crag

Crag

Úr Limerick förum við fyrst N20 og síðan N21 til Adare, fallegs þorps með afar fínu hóteli, Adare Manor.

Áfram höldum við eftir N21 unz við komum rétt hjá Castleisland að afleggjara til vinstri til Crag-hellis.

Crag Cave er meira en milljón ára gamall kalksteinshellir, sem fannst af tilviljun 1983. Hann er nærri fjögurra kílómetra langur, en til sýnis er 350 metra kafli. Þar eru ósnertir dropasteinar, sem eru fegurstir í flóðlýstum aðalsalnum, Crystal Gallery.

Blennerville, Írland

Blennerville

Blennerville

Við förum afleggjarann til baka inn á N21 og ökum um Castleisland til Tralee, þar sem við förum á R559 til Blennerville, þar sem við stönzum við vindmyllu handan langrar brúar.

Blennerville kornmölunar-vindmyllan er 18 metra og fimm hæða, reist um 1800 og er enn í lagi, þótt rafmótor fari í gang, þegar vindur bregzt. Í safni við hlið myllunnar er sagt frá vindmyllun og kornmölun, svo og frá írskum vesturheimsförum.

Hér er einnig brautarstöð rúmlega hundrað ára gamallar mjóspora járnbrautar milli Tralee og Blennerville. Ferðamenn fara þessa leið í þremur upprunalegum vögnum, sem eru dregnir af upprunalegum eimvagni.

Connor

Við höldum áfram R559 og síðan R560 í átt til Connor Pass og loks þverveg merktan Connor Pass. Þann veg förum við upp í skarðið.

Connor Pass er hæsti fjallvegur Írlands, 456 metra hár. Vegurinn liggur í sneiðingi upp snarbratta klettahlíð inn í smáskarð í fjallakambinum. Í skarðinu er bílastæði, þaðan sem útsýni er til beggja átta. Á þessum slóðum er landslag nakið og hrikalegt.

Næstu skref