Dingle
Við förum niður sneiðinginn hinum megin til bæjarins Dingle.
Dingle er blanda af fiskveiðibæ og ferðamannabæ. Ytri og innri höfnin veita gott skjól gegn höfuðskepnunum, því að þær eru báðar næstum lokaðar. Annað hvert hús í miðbænum er annað hvort krá eða veitingahús.
Í miðbænum finnum við Doyle’s Seafood Bar, gamalt hús frá 1830. Þar eru átta þægileg gistiherbergi búin forngripum og glæsilegum baðherbergjum. Tveggja manna herbergi kostaði £62 með morgunverði.
Fahan
Við förum vestur úr bænum leið merkta Slea Head Drive. Brátt komum við að vegamótum, þar sem hliðarvegur er merktur Gallarus Oratory. Við kjósum í bili að halda beint áfram og förum um þorpið Ventry.
Við komum að skilti við Dunbeg Fort. Þaðan er gengið til vinstri að forsögulegu strandarvirki frá járnöld niðri við sjávarhamra.
Skömmu síðar byrjum við að sjá vegvísa til Fahan-kofa. Við getum stanzað við hinn fyrsta, því að þar er örstutt leið til hægri frá bílastæðinu upp að fornleifunum.
Á þessum slóðum í hlíðum Eagle fjalls eru rúmlega 400 steinhlaðnir kofar (behive huts eða clochans) frá forsögulegum tíma, allir hlaðnir í hálfkúluformi án steinlíms eða annars bindiefnis, margir hverjir í ágætu ásigkomulagi. Þeir eru í smáhópum hér og þar um hlíðina. Flestir kofarnir eru taldir frá 6.-10. öld.
Gallarus
Við getum snúið við og haldið að áðurnefndum gatnamótum til Gallarus Oratory og beygt þar til vinstri. Við getum líka haldið áfram skemmtilega útsýnisleið kringum nesið og komið að Gallarus Oratory úr hinni áttinni.
Gallarus Oratory er ein merkasta fornleif Írlands. Það er steinkirkja frá 8. eða 9. öld, hlaðin úr steinhellum frá jörð og upp í mæni án steinlíms eða annars bindiefnis. Hleðslan er afar vönduð og vatnsþétt og hefur varðveitzt fullkomlega, þótt flestar aðrar slíkar kirkjur hafi hrunið undan eigin þunga.